142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Húsnæðismálin eru eitt áhugaverðasta og mikilvægasta málefnið sem við ræðum á vettvangi stjórnmálanna. Húsnæðismál varða grundvallarvelferð heimilanna en þau eru líka stórt efnahagsmál. Þetta er víðtækur málaflokkur og þarf að vanda vel til verka þegar teknar eru ákvarðanir um húsnæðismál. Á síðasta kjörtímabili mótuðum við húsnæðisstefnu þar sem húsnæðisöryggi, félagsleg samheldni og viðráðanlegt verð voru leiðarljósin. Mikil vinna er að baki varðandi húsnæðisbætur, húsnæðisáætlun, rekstrarumhverfi húsnæðisfélaga, upplýsingar um húsnæðismarkað og úrvinnslu vegna vanda Íbúðalánasjóðs. Reykjavíkurborg er þegar farin að vinna í anda þessarar stefnu og Kópavogur er nú að vakna til lífsins. Það er sérstaklega ánægjulegt að geta þess að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið ákaflega góður félagi í þessari vinnu og ríkir sameiginlegur skilningur á málinu milli ríkis og sveitarfélaga.

Mikilvægustu og brýnustu verkefnin höfum við í þingflokki Samfylkingarinnar lagt fram í sérstakri þingsályktunartillögu. Ég tel allra mikilvægustu verkefnin vera þau að styðja við opinbera aðila eða félög í almannaþjónustu sem vilja byggja leiguhúsnæði án gróðasjónarmiða og reka til lengri tíma litið. Hinum frjálsa markaði verður ekki treyst fyrir húsnæðisöryggi landsmanna ef við fáum einhverju ráðið. Annar grundvallarþáttur til þess að öflugur og öruggur leigumarkaður sé raunveruleg framtíðarsýn er innleiðing húsnæðisbóta þannig að ríkið sé tilbúið til þess að styðja leigjendur til jafns við eigendur. Ég þakka fyrir umræðuna og hlakka til að vinna í umboði félags- og húsnæðismálaráðherra að umbótum í húsnæðismálum á Íslandi.