142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þakka hv. málshefjanda fyrir að efna til þessarar umræðu. Það vill svo vel til að tillaga frá þingflokki Samfylkingarinnar er til umræðu á eftir þannig að þá er hægt að eyða lengri tíma í þessa umræðu.

Það sem ég vil segja er að staðan á húsnæðismarkaði er hluti af miklu stærri mynd. Þetta er hluti af þeirri mynd sem hefur verið að dragast upp á undanförnum áratugum sem er mikil áhersla á einkaeign, mjög mikil einkaeignarstefna. Fyrir vikið hefur það ekki verið raunverulegt val að vera leigjandi heldur yfirleitt verið einhvers konar biðstaða, einhvers konar biðástand.

Nú eru, eins og fram hefur komið, stærstu árgangar Íslandssögunnar að koma út á húsnæðismarkaðinn, það eru 23 þúsund manns sem eru fæddir á árunum 1988–1992, þannig að eftirspurnin mun aukast gríðarlega eftir húsnæði. Á sama tíma er mjög flókin staða uppi. Greiðslubyrði er lægri af kaupum en leigu en á sama tíma á fólk ekki reiðufé til að reiða fram við útborgun á íbúðarhúsnæði. Fólk er í stórum stíl í mjög mikilli klemmu.

Svo vil ég nefna að staðan á húsnæðismarkaði er að hluta til brot af því sem skapar lífskjör ungra fjölskyldna í landinu. Þar verðum við líka að draga inn lánasjóðsstöðuna, leikskólaframboð og almenningssamgöngur. Þetta er allt saman það sem skapar ramma utan um daglegt líf ungra fjölskyldna á Íslandi í dag. Þetta er það sem ungt fólk horfir til þegar það velur sér búsetu, hvort það ætlar að búa á Íslandi eða einhvers staðar annars staðar næstu ár. Þetta er samsett mynd sem dregst upp þegar fólk velur sér búsetu.