142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:25]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að vekja máls á þessu og kem hér aðallega til þess að hvetja hæstv. ráðherra til þess að taka á þessum málum af festu. Það er alveg sama hvar á það er litið í þessu blessaða þjóðfélagi okkar, það er alltaf svo dapurlegt ástand á öllum málum. Ég veit ekki hvort maður á alltaf að koma og grenja hér uppi í ræðustól en það virðist samt vera staðreyndin að það er alveg sama hvar á það er litið, það er allt í kaldakoli á Íslandi og ekki síst í þessum málum. Það er eiginlega bara eins og … (Gripið fram í: … bjarta framtíð.) Já, það er það sem við erum að reyna að boða, bjarta framtíð. Það gerum við með því að standa saman. Ástandið er svona en við horfum til bjartrar framtíðar í þessum málum eins og öllu öðru en hún verður ekki nema með víðtækri sátt og samvinnu. Ég segi það að sveitarfélög, ríki, verkalýðsfélög, lífeyrissjóðir eiga að taka höndum saman og leysa þessi mál. Nóg er af peningunum hjá þeim. Það er bara þannig.

Í mínu sveitarfélagi, Grindavík, þar sem er bullandi uppgangur og mikil vinna, er mikil vöntun á húsnæði og margt af því fólki sem vinnur í fiskvinnsluhúsunum í Grindavík og í fyrirtækjum sem eru þar, býr annars staðar, það býr í Reykjanesbæ. Það er gríðarlegur kostnaður fyrir fólk sem vinnur í fiskvinnslu. Eins og þið vitið eru nú launin þar ekki til þess að hrópa húrra fyrir, og svo bætist við að þurfa að keyra á milli á hverjum einasta degi. Ég veit það sjálfur. Fólk sækist eftir því að komast í íbúðir sem Íbúðalánasjóður og Landsbankinn eiga. Það eru 40 íbúðir lausar þarna en þeir leigja þær bara ekki út og það er nokkuð sem við þurfum að taka á. Það er hægt að fá smá lausnir í þessum málum en það þarf aðgerðir. Hættum þessu nefndastússi alla tíð, gerum eitthvað í málunum og það er það sem þarf að gera. Það þarf víðtæka sátt í þessum málum sem öðrum og þá eigum við fyrir höndum bjarta framtíð, það er alveg ljóst.