142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mig langar að gefnu tilefni að taka fram að mjög gott samstarf hefur verið í allsherjar- og menntamálanefnd um þetta mál. Um það hafa vitnað, ég held að ég fari rétt með, allir þeir fulltrúar úr nefndinni sem tekið hafa til máls. Það er rétt að halda því til haga. Menn hafa litið til sjónarmiða hver annars en mig langar að fjalla í örstuttu máli um þá fullyrðingu að hér sé verið að brjóta stjórnarskrá og í því efni er vísað til umsagnar Persónuverndar.

Í umsögn Persónuverndar kemur fram að hún telji að við höfum með breytingartillögum okkar í nefndinni komið til móts við þau sjónarmið er varða markmið og afmörkun þessa verkefnis. Síðan er vísað til þess að það skorti enn á rökstuðning um nauðsyn umræddrar upplýsingasöfnunar. Auðvitað er rétt að slíkur rökstuðningur kemur ekki fram í breytingartillögunum vegna þess að rökstuðningur okkar í nefndinni kemur fram í nefndaráliti okkar. Að sjálfsögðu hefur Persónuvernd hvorki fjallað um það nefndarálit né gefið álit sitt á því. Ég bið hv. þingmenn að kynna sér sjónarmiðin sem birtast (Forseti hringir.) í nefndaráliti okkar vegna þess að þar er rökstuðningurinn. Það nefndarálit er ítarlegt en það er okkar hér að meta hagsmunina, (Forseti hringir.) þ.e. hvort við teljum rétt að samþykkja þetta frumvarp. Ég tel að svo sé.