142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hnaut í orðræðunni um það að menn höfðu áhyggjur af því að hér væri verið að aflétta bankaleynd. Mig langar að minna þingmenn á að fyrir hrun voru ýmsir aðilar, jafnvel á Alþingi, sem höfðu áhyggjur af stöðu mála, að hér gæti jafnvel orðið hrun. Þá var vísað í orðið bankaleynd. Það var ekki hægt að afla þessara upplýsinga og svo fór sem fór, ekki satt?

Allt síðasta kjörtímabil skeggræddum við hér nánast á hverjum einasta degi um það hver væri raunveruleg skuldastaða heimilanna í landinu. Nú er verið að auka heimildir Hagstofunnar. Hún hefur þær að hluta til en þær koma seint og illa.

Að sjálfsögðu vill enginn brjóta mannréttindaákvæði í stjórnarskránni og menn reyna af fremsta megni að tryggja að svo verði ekki en þessar upplýsingar eru að sjálfsögðu nauðsynlegar til að við fáum raunverulega stöðu og getum farið í það að leiðrétta skuldir heimilanna. Ég held að formaður Samfylkingarinnar ætti að koma hér upp og svara því hvort hann sé ekki bara (Forseti hringir.) reiðubúinn að aðstoða okkur (ÁPÁ: Jú.) í að koma til móts við skuldug heimili í staðinn fyrir að finna því alltaf allt til foráttu. (Forseti hringir.)