142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:56]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp til þess að undirstrika að starfið í nefndinni var mjög gott. Þar var unnið af heilindum og menn lögðu sig alla fram við að reyna að finna lausn á þessu máli, en við teljum í minni hlutanum að við séum ekki búin að ná góðri lausn. Það hefði verið hægt að ná betri lausn og vægari úrræðum í þessum málum.

Ég saknaði þess að ekki skyldu koma fleiri hérna upp til þess að ræða þessi mál þegar það var hægt, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokknum því að þar er nú mörg mannvitsbrekkan þegar kemur að persónufrelsi og eignarréttarákvæðum og öðru. Reyndar kom Brynjar upp, þar fer mjög vitur maður og hv. þm. Pétur Blöndal. En ég hefði viljað fá að heyra fleiri tjá sig um málið því að hér eru margir mjög góðir og lögfróðir menn sem hefðu getað lagt sitt af mörkum við að reyna að leysa þetta mál. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Hv. þm. Brynjar Níelsson kom sem varamaður inn í nefndina og það var virkilega gott. Hann er einlægur maður og fór ekki í launkofa með hvað hann hefur mikinn — já, ég ætla ekki að segja meira, ég ætla ekki að búa eitthvað til. (Gripið fram í.) En hann kom með spurningu til Persónuverndar: Hvar endar þetta? (Forseti hringir.) Það er stóra spurningin. (Gripið fram í.)(Gripið fram í: Heyr, heyr.)