142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[18:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og sérstaklega fyrir að hann skyldi fara yfir þau atriði sem hann telur mikilvægt að ljúka. Ég hef fullan skilning á að þörf sé fyrir þetta. Þetta hefur verið gert hér áður. Þetta er eitt af því sem við þekkjum eftir hrun, endurtekið efni.

Það er mikil vinna fram undan í lífeyriskerfinu okkar eins og hæstv. ráðherra vísaði í. Miklir hagsmunir eru undir og mikilvægt að við á Alþingi Íslendinga reynum eins og hægt er að vinna saman að því að koma sameiginlega á þeim kerfisbreytingum sem þarf að koma á koppinn og í sátt því að þetta er lífeyriskerfið okkar allra. Eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra benti á eru líka í húfi mikilvægir hagsmunir fyrir ríkissjóð.

Ég er með eina spurningu til hæstv. ráðherra. Hún varðar breytingu á 36. gr. þar sem fjallað er um fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Litlar breytingar á henni geta haft ófyrirséðar afleiðingar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þær breytingar sem eru gerðar á þessu séu ekki gerðar á tveim, þrem dögum heldur sendar út til umsagnar og nefnd eða nefndir þingsins fái tækifæri til að ræða það almennilega. Varðar það jafnt fjárlaganefnd sem efnahags- og viðskiptanefnd og ég spyr hann því hvort hann sé ekki sammála mér um að það væri óþarfi að vera að gera breytingar sem vörðuðu þá grein. Kannski er erfitt fyrir hann að svara núna af því að þetta eru margar greinar (Forseti hringir.) og þær rekast saman en þetta atriði var það sem ég vildi spyrja hann um.