142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar. Varðandi þá athugasemd sem hér kemur fram tel ég að breytingarnar sem nú er mælt fyrir séu ágætlega útskýrðar í greinargerð með frumvarpinu og þær verði að teljast mjög afdrifalitlar fyrir fjárfestingarstefnuna. Það hefur verið gert ráð fyrir því, eins og segir í greinargerð um 9. og 10. gr., að Fjármálaeftirlitið setji reglur um form og efni fjárfestingarstefnu og hvernig henni skuli skilað til eftirlitsins og svo hins vegar um form og efni skýrslna um úttekt á eignasöfnum. Ráðherra hefur fjallað um þessi atriði í reglugerð sem sett var með stoð í 56. gr. laganna og þannig er byggt á því hér að ákvæði þeirrar reglugerðar hafi leyst fyrrnefndu reglurnar af hólmi. Það er meðal annars með þeirri skýringu sem þessi breyting er lögð til.

Ég get hins vegar tekið undir það almennt um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða að breytingar á henni þurfa að eiga sér eðlilegan aðdraganda. Í því sambandi vil ég taka það upp í þessari umræðu að ég tel að við þurfum að ræða það hvort opna eigi fyrir frekari fjárfestingar lífeyrissjóða en kveðið er nú þegar á um í lögunum, t.d. um heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í fyrirtækjum sem til framtíðar eru líkleg til að vaxa mest og við mundum kalla nýsköpunar- eða sprotafyrirtæki. Þar vantar mjög sárlega fjárfestingu eins og sakir standa á sama tíma og lífeyrissjóðirnir hafa mjög mikla fjárfestingargetu.