142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

40. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Eins og kunnugt er stendur nú yfir og hefur lengi staðið yfir endurskoðun á húsnæðisstefnu stjórnvalda. Hún heldur áfram núna undir forustu nýs félags- og húsnæðismálaráðherra sem hefur tilkynnt að byggt verði á þeirri vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum missirum. Það er þakkarvert. Engu að síður er það ástand sem nú er komið upp á leigumarkaði með þeim hætti að ekki verður horft fram hjá því hversu alvarlegt og brýnt það er að grípa til sérstakra aðgerða vegna þess án tafar. Því leggjum við fram þessar tillögur sem eru í samræmi við þær meginlínur um endurskoðun húsnæðisstefnunnar sem unnið hefur verið eftir hingað til.

Ég ætla að fara yfir þær tillögur sem eru greindar í þingsályktunartillögunni í þeirri röð sem þær eru settar fram. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að sem fyrst verði lagt fram á Alþingi frumvarp um húsnæðisbætur sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og eigendur húsnæðis. Sú stefna hefur verið mörkuð að nýjar húsnæðisbætur taki við af vaxtabótum og húsaleigubótum og var fyrsta skrefið í þá átt stigið um síðustu áramót með stórfelldri hækkun húsaleigubóta.

Það er jafnframt ljóst að það er stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem við tókum undir í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, að flytja beri byrðar vegna almennra húsaleigubóta frá sveitarfélögum og yfir til ríkisins. Sú staðreynd að sveitarfélög bera í dag kostnað vegna almennra húsaleigubóta, sem áætlaður er á þessu ári rúmlega 1,5 milljarðar, veldur því að það þarf ansi hugrakka sveitarstjórnarmenn til þess að úthluta lóðum til leiguhúsnæðis þegar þeir vita að með því kalla þeir viðbótarútgjöld yfir viðkomandi sveitarfélag. Það er sér í lagi hættulegt þegar sveitarfélög bera engan kostnað af vaxtabótum. Það er því mjög mikilvægt að það sé sama fjármögnunarkerfið fyrir húsaleigubætur og vaxtabætur því að annars er það þannig að það er erfitt fyrir sveitarstjórnarmenn að réttlæta það yfirhöfuð, sérstaklega núna þegar mörg sveitarfélög eru í erfiðu rekstrarumhverfi, að úthluta lóðum til leigufélaga ef þau baka sér þar með viðvarandi útgjöld til langframa.

Það er til grunnur að þessu kerfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það gerist vegna þess að það er forsenda allra annarra aðgerða. Það er forsenda þess að leigufélög geti starfað með fullnægjandi hætti og rekstrarumhverfi þeirra verði fullnægjandi og, eins og ég segi, dregur úr aðstöðumuninum að öllu leyti milli leigjenda og eigenda húsnæðis.

Í annan stað leggjum við til að ríkisstjórnin gangist fyrir samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbinda sig til langtímarekstrar á leiguhúsnæði. Við gerum ráð fyrir því að stofnstyrkirnir geti numið allt að 20% af byggingarkostnaði nýrra leiguíbúða, að unnt verði að veita fyrirgreiðslu í formi lóða á kostnaðarverði eða annarrar eftirgjafar opinberra gjalda og að slíkt teljist þá sem hluti af stofnstyrk. Við gerum ráð fyrir því að leigufélög sem mundu njóta slíkra stofnstyrkja væru háð ýmsum skilmálum. Til dæmis yrði bannað að selja íbúðir úr félögunum og jafnframt skuldbyndu félögin sig til að standa í langtímaútleigu og gera leigusamning til einhverra ára. Það hefur auðvitað verið rætt mikið og kom fram í máli hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrr í dag í sérstakri umræðu um leigumarkaðinn að hugmyndir ríkisstjórnarinnar núna lytu að því að ívilna sérstaklega leigufélögum sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Það er vissulega gott og gilt, þau eru mörg til og er mikilvægt að styðja við þau, en það er auðvitað líka mikilvægt að finna umgjörð fyrir leigufélög sem rekin eru í hagnaðarskyni og þá þannig að það væri samt ekki hægt að ganga í opinbera sjóði og hagnast með óeðlilegum hætti. Ef lífeyrissjóðir eiga að geta rekið leigufélög verður að vera hægt að reka þau með hagnaðarsjónarmiði því að þeir geta ekki rekið leigufélögin nema að taka út úr þeim einhvern hagnað.

En ég held að þeir ættu til dæmis að vera algjörlega til viðræðu um að á móti kæmi að þeir mundu þá gera leigusamninga til margra ára. Þeir mundu setja hámark á þann hagnað sem þeir gætu tekið út og svo framvegis. Þetta er allt umgjörð sem þarf að útfæra og er mjög mikilvægt að það verði gert sem allra fyrst. Ég sé fyrir mér að um leið og sveitarfélögin losna við reikning upp á 1,5 milljarða vegna almennra húsaleigubóta skapist svigrúm hjá þeim til annarra aðgerða í húsnæðismálum. Þá er eðlilegt að þau nýti það svigrúm að minnsta kosti að hluta til til stofnstyrkja af þessum toga.

Það er líka eðlilegt að ef leigufélög sem njóta svona stofnstyrkja væru síðan leyst upp mundu opinberir aðilar fá til baka það sem þeir hefðu lagt í þessi félög. Það er auðvitað ófært að hafa umgjörðina um leigufélög með þeim hætti sem var á árunum fyrir hrun þar sem menn gátu í sjálfu sér fengið lán út á leigufélag og svo gátu þeir bara ákveðið að selja íbúðirnar á síðari stigum þegar hagur markaðarins vænkaðist. Það skapar ekki öryggi á leigumarkaði, það skapar ekki tryggingu fyrir það að fólk geti búið í leiguhúsnæði til langframa.

Þess vegna held ég að þessi umgjörð muni skipta mjög miklu og að sveitarfélögin verði að koma þarna að með ríkum hætti. Úti á landi þurfa þau líka að koma að. Ég er búinn að vera á ferð um landið síðustu vikur og um allt norðanvert Snæfellsnes og alla sunnanverða Vestfirði er sama sagan, það er ekkert húsnæði í boði. Þar er vandamál að fá kennara, þar er vandamál að fá starfsfólk í fyrirtæki sem eru að hasla sér völl vegna þess að það er ekkert húsnæði sem hægt er að bjóða fólki til að taka á leigu. Einstaka íbúðir koma á sölu en það er líka orðið þannig að verð þeirra fer hækkandi, jafnvel svo mjög að Íbúðalánasjóður efast um að um raunveruleg viðskipti sé að ræða vegna þess að það er uppgangur í mörgum af þessum sveitarfélögum.

Þarna sjáum við í hnotskurn vandamál sem ríkið og sveitarfélögin verða að koma saman að því að leysa. Ríkið og sveitarfélögin verða að stuðla að því saman að til sé einhver lágmarksstokkur af leiguhúsnæði í litlum sveitarfélögum úti um land þannig að þau geti nýtt sér tækifærið þegar ný tækifæri myndast í atvinnulífi og geti raunverulega fengið nýtt starfsfólk á staðinn.

Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra bjóði ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar leiguíbúða til leigufélaga sem sett verði á fót. Mikil vinna hefur verið í gangi á vegum borgaryfirvalda í Reykjavík við að flokka lóðir ríkisins í Reykjavík og koma með óskalista um þær lóðir sem menn telja að hægt sé að byggja á. Því til viðbótar á ríkið margar vannýttar lóðir í Reykjavík. Til dæmis er lóðin við útvarpshúsið ekki nýtt nema að hluta. Það er stór spurning hvort ekki megi nýta hana betur, hvort ekki megi byggja þar við hliðina. Svona mætti lengi telja. Við þurfum að hafa augum opin fyrir þéttingu byggðar. Ríkið mundi leggja fram lóðir sínar á kostnaðarverði inn í svona leigufélög. Það er þá einfaldlega kvöð á húsnæðinu, ekki er hægt að selja húsnæðið út úr félögunum nema að gjalda ríkinu markaðsverð á lóðunum. Ríkið væri í sjálfu sér að eignast hlutdeild í verkefninu með því að leggja lóðirnar fram.

Í fjórða lagi gerum við ráð fyrir að félagsmálaráðherra setji Íbúðalánasjóði skilyrði um að sjóðnum verði gert að koma íbúðum í útleigu eða selja þær til leigufélaga svo fljótt sem verða má eftir að sjóðurinn eignast þær. Það er auðvitað búið að gera mikið í því á síðustu missirum, búið er að stofna leigufélag á vegum Íbúðalánasjóðs sem hefur núna á sjötta hundruð íbúða sem metnar voru sem líklegustu íbúðirnar til þess að fara beint í útleigu. Engu að síður er það þannig að hvar sem maður kemur á landinu kvarta menn yfir að þar séu íbúðir Íbúðalánasjóðs ónýttar og það er einfaldlega ekkert hægt að skella skollaeyrum við því.

Það er auðvitað stórskrýtið að hitta fólk í Grundarfirði þar sem einn maður hrósar happi yfir því að hafa unnið í lotteríi um eina íbúð Íbúðalánasjóðs þegar það eru margar íbúðir til viðbótar sem ekki voru settar á markaðinn. Mikil eftirspurn var eftir þessari einu íbúð sem boðin var til útleigu. Hvað með hina sem voru ekki svo heppnir að vinna í lotteríinu en þurfa á húsnæði að halda á staðnum?

Það er því mjög mikilvægt að setja enn strangari tímamörk í þessu efni og ég held að við verðum að ýta á það að sjóðurinn horfist í augu við óhjákvæmilegt tap ef það er fyrir hendi þannig að menn haldi ekki eignum að óþörfu og að sjóðurinn geti þá komið eignum til leigufélags í eigu lífeyrissjóðanna eða eitthvað slíkt sem gæti gert upp það húsnæði sem þarf að gera íbúðarhæft. Mér skilst að eitthvað af því húsnæði sem ekki hefur verið sett í leigufélagið sé ekki íbúðarhæft. Það þarf þá bara að klára það og koma því í útleigu.

Í fimmta lagi gerum við að tillögu að umhverfis- og auðlindaráðherra gangist fyrir endurmati á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingum minni íbúða til leigu. Fram kom hjá hæstv. félagsmálaráðherra í dag að sú vinna er þegar hafin í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það er þakkarvert og ég fagna því sérstaklega. Nýbyggingarreglugerð var sett á síðasta vetri og höfðum við mörg grunsemdir um að þar væri verið að ganga of langt í að þrengja að byggingu lítilla íbúða. Nú heyri ég frá sérfræðingum að svo sé raunverulega. Arkitekt hafði samband við mig í gær og sagði að illmögulegt væri orðið að hanna minni íbúðir en 70 fermetra. Það er auðvitað ekki ásættanlegt og gengur þvert á það sem sérfræðingar sögðu okkur stjórnmálamönnunum í fyrravetur, að þetta væru allt nauðsynlegar kröfur frá útlöndum og að engrar undankomu væri auðið. En það virðist vera að við gerum miklu stífari kröfur en gerðar eru í Noregi og Svíþjóð, svo að dæmi séu tekin af nágrannalöndum okkur sem gera þó ríkar kröfur til byggingar húsnæðis.

Það er auðvitað grundvallaratriði. Það verður að vera hægt að byggja litlar, ódýrar íbúðir. Það verður að vera hægt að komast af með lítið geymslupláss fyrir fólk sem vill borga af fáum fermetrum. Þegar fasteignaverð hefur hækkað eins og það hefur gert núna og þegar það er orðið svona erfitt fyrir fólk að safna fyrir útborgun í eigin íbúð og fyrsti viðkomustaður fólks hlýtur að verða leigumarkaður í lítilli íbúð, er mjög mikilvægt að til séu litlar íbúðir og fólki sé gert auðvelt að komast í þær.

Að síðustu gerum við ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi lagafrumvarp sem undanþiggi tekjur vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti og jafnframt verði tryggt að slíkar tekjur skerði ekki bætur almannatrygginga. Skilyrði þess að það geti átt við sé að menn geri leigusamning í að minnsta kosti í 12 mánuði. Það er almennt þekkt núna að íbúðum sem eru til útleigu á almennum íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað stórlega á undanförnum árum samhliða aukinni ásókn ferðamanna í íbúðir og sífellt fleiri sjá sér gróðavon í því að leigja út íbúðir til ferðamanna. Það er ósköp skiljanlegt en það er líka mjög mikilvægt að hvetja þá til almennrar búsetu sem vilja leigja. Tillagan miðar að því og felur það í sér að t.d. eldra fólk getur leigt út íbúðir, sem sér sér annars ekki hag í því í dag vegna þess að jaðarskatturinn af því að leigja út íbúð er svo hár. Bæði þarf fólk að borga fjármagnstekjuskatt og eins skerðast bætur almannatrygginga. Þess vegna leggjum við til að heimilt verði að undanþiggja hvort tveggja, sem sagt að leiga einnar leiguíbúðar verði undanþegin bæði fjármagnstekjuskatti og skerði ekki bætur almannatrygginga. Við teljum að þá séu líkur til þess að fleira eldra fólk sjái sér hag í því að leigja út frá sér. Með því að binda það við 12 mánuði er líka verið að hugsa um fólk sem er á götunni yfir sumarmánuðina. Það er alþekkt vandamál orðið að námsmenn fá íbúð til leigu í níu mánuði og síðan er þeim hent út og þeir eru bara húsnæðislausir yfir sumarmánuðina þangað til þeir geta fest sér eitthvað nýtt þegar hausta tekur og ferðamönnum fækkar.

Virðulegi forseti. Ég vísa svo að öðru leyti til greinargerðar með tillögunni þar sem farið er frekar yfir bakgrunninn. Það er ósk mín og von að það takist að afgreiða tillöguna á þessum litla stubbi. Ég tel mikilvægt að við tökum höndum saman um það á Alþingi og ég fagna því sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sagði í dag að hún væri efnislega sammála þessum tillögum. Mér þætti líka góður bragur á því ef stjórnarmeirihlutinn væri til í að taka í útrétta hönd okkar um þetta mál og að við gætum leitt það til lykta og samþykkt þingsályktun af þessum toga því að ég held að það væri styrkur fyrir ráðherrann og fyrir ríkisstjórnina að hafa fyrirliggjandi skýra þingsályktun um vilja í þessu efni frá Alþingi.