142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

40. mál
[19:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni leggjum fram þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. og formaður flokksins, Árni Páll Árnason, fór hér svo ágætlega yfir. Fyrr í dag var sérstök umræða um vandann sem steðjar að fólki á leigumarkaði og ekki að ástæðulausu því að ástandið er mjög erfitt. Ég vil vekja athygli þingsins á því að síðar í mánuðinum verða stofnuð ný samtök leigjenda enda er orðið það mikið af fólki sem býr á leigumarkaði. Það tekst á við erfiðan veruleika leigjenda af því að við, stjórnvöld, höfum ekki skapað nægilega trygga og góða umgjörð utan um það grundvallarvelferðarmál sem húsnæðismál eru. Ég fagna sérstaklega að slík hagsmunasamtök séu að verða til. Þau hafa ekki verið til um nokkra hríð frá því að Jón heitinn frá Pálmholti sem hér var getið um áðan hætti eða lést en það er fyllilega tímabært að koma á slíkum samtökum.

Hver er vandinn á leigumarkaði? Vandinn er sá að skortur er á húsnæði sem leiðir auðvitað af sér hátt og uppsprengt verð sem venjulegt launafólk getur ekki staðið undir nema með miklum herkjum. Það eru mjög miklar álögur á heimili á leigumarkaði. Fólk býr ekki við húsnæðisöryggi, það þarf að flytja, oft árlega og það hefur auðvitað mjög alvarlegar afleiðingar fyrir börn sem eru í skólum ef þau neyðast jafnvel til að skipta um skóla þegar skipt er um húsnæði. Það gerist í mörgum tilfellum og er veruleiki margra lítilla íslenskra barna. Eða þá að þau þurfa að fara lengri leiðir til að fara áfram í gamla skólann sinn því að þau geta ekki hugsað sér að skipta. Þetta er auðvitað ekki aðstæður sem við viljum að börn í einu af ríkustu löndum heims þurfi að búa við. Og þó að ekki séu börn til staðar viljum við að sjálfsögðu öll eiga okkar heimili og vita af því öryggi sem í því felst að þurfa ekki að flytja okkur um set fyrr en okkur sjálfum þóknast en ekki þegar leigusalinn álítur að hann geti ekki haft okkur lengur en í 12 mánuði eða 24 eða hvað það kann að vera.

Ég fór yfir það í ræðu áðan að við í Samfylkingunni hefðum lagt mikið kapp á húsnæðismál. Við vorum mörg sem hefðum viljað ná lengra en ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem ég sagði áðan um alla þá vinnu sem unnin var. Niðurstaðan er þó sú að við leggjum hér fram fullbúna tillögu um bráðaaðgerðir sem er vel ígrunduð því að mikil vinna og undirbúningur liggur að baki. Þetta er ekki bara eitthvað sem okkur finnst hljóma vel. Þetta er niðurstaða af mikilli vinnu og víðtæku samráði. Við höfum verið í góðu samstarfi við ýmsa hagsmunaaðila svo sem eins og verkalýðshreyfinguna, Samtök atvinnurekenda, lífeyrissjóðina og síðast en ekki síst sveitarfélögin. Ég tel að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi ákaflega metnaðarfulla framtíðarsýn og sé ákaflega góður samstarfsaðili fyrir ríkið í þessum málum. Ég tel að í hvívetna eigi að reyna að hafa það sem mest með okkur í þessari vinnu enda eru það sveitarfélögin sem bera ábyrgð á að tryggja húsnæði fyrir fólk og það eru sveitarfélögin sem þjónusta fólk og nærsamfélag þess.

Það er mikilvægt að við byggjum upp leigumarkað sem byggir á öryggi og stuðlar líka að félagslegri samheldni, að það sé ekki einn tekjuhópur sem býr í einu hverfi og annar tekjuhópur sem býr í öðru. Það eru andstyggileg samfélög, það eru samfélög mismununar og þau bjóða upp á samfélagsrof því að ólíkir þjóðfélagshópar komast ekki í tæri hver við annan. Við viljum búa í samfélagi þar sem við erum öll á sama báti, svo getur staðið misvel á hjá okkur eftir því hvar á æviskeiðinu við erum eða hvort við lendum í sjúkdómum eða einhverjum öðrum þeim óhöppum sem fylgja nú blessuðu lífinu.

Árið 2011 voru tæplega 20% heimila á leigumarkaði. Ég veit ekki nákvæmlega stöðuna núna en þeim hefur að minnsta kosti ekki fækkað. Kannanir sýna að þeir eru fleiri sem mundu velja sér þann kost fremur en þá áhættu sem fylgir því að verða að fjárfesta í húsnæði. Séreignarstefnan er góð og gild og það er gott þegar fólk getur fjárfest í húsnæði óski það svo en þegar fólk er neytt til að taka áhættu og spenna bogann of hátt til að öðlast húsnæðisöryggi búum við ekki í velferðarsamfélagi með sanni.

Ég hlakka til þeirrar vinnu þegar við í velferðarnefnd tökumst á við þessa tillögu. Ég fagna því líka að almennur skilningur sé á því í þinginu að þörf sé á sameiginlegu átaki í leigumarkaðsmálum. Það var vitnað hér áðan til Reykjavíkur og Kópavogs. Það er sannarlega ánægjulegt að stór sveitarfélög á suðvesturhorninu séu að vakna til lífsins en það þarf líka að gefa minni sveitarfélögum með mun færri íbúa kost á að tryggja íbúum sínum húsnæðisöryggi. Við eigum öll að búa við húsnæðisöryggi óháð því hvort við erum í Reykjavík eða á Kópaskeri.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín lengri en fagna því að við höfum verið í tvígang í umræðu um leigumarkað í dag og ég veit að þessi mál verða mikið til umræðu á vettvangi þingsins. Það var ánægjulegt að við skyldum hafa getað hafið hana á vinsamlegum samstarfsnótum.