142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég vil af fullri hófsemi og vinsemd vekja máls á því að komið hefur til tals meðal annars í þingflokki mínum og fleiri þingflokkum, hygg ég, að undanförnu vinna í þinginu við skýrslu rannsóknarnefndar um málefni Íbúðalánasjóðs, sem eðli málsins samkvæmt hefur farið til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér er kunnugt um að uppi voru óskir um að velferðarnefnd, sem fer með húsnæðismál, fengi skýrsluna einnig til meðferðar, en eftir því sem við vitum best hefur nú verið talinn einhver hængur á því og það hefur ekki gengið alveg þrautalaust fyrir sig. En þó bar svo til að boðað var til fundar í fjárlaganefnd þar sem umrædd skýrsla var sérstaklega á dagskrá og hefur ekki þótt neitt tiltökumál. Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann taki það til skoðunar hvort annað gildi um fjárlaganefnd en aðrar nefndir eða hvernig eigi að túlka þingsköpin að þessu leyti.

Mér finnst alla vegana eðlilegt að sama gildi um allar nefndir og eðlilegast að nefnd sem fer með húsnæðismálefni fái að fjalla um þessa skýrslu án þess að gert sé mikið mál úr því.