142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil segja að sú umræða sem hér hefur farið fram ítrekar þörfina fyrir að hæstv. forseti og forsætisnefnd taki ákvörðun um hlutverk og meðferð á svona skýrslu. Mistökin í sambandi við skýrsluna um Íbúðalánasjóð eru að hafa ekki kynnt hana sérstaklega fyrir velferðarnefnd strax í upphafi. Við verðum að átta okkur á því að þetta er nefnd sem fer með málefni Íbúðalánasjóðs að öllu leyti og fjallar um alla stefnumótun og grundvallarvinnu og á að meta hvort lög hafi virkað og annað, það heyrir undir velferðarnefnd.

Það er fullkomlega óþolandi fyrir viðkomandi nefnd að sitja sem áhorfandi í langan tíma án þess að fá bestu upplýsingar um það hver niðurstaðan er úr skýrslunni. Ef svona nefndum er ýtt til hliðar á meðan unnið er að málum á öðrum stað þá hefur eitthvað nýtt komið upp í þinginu og hefur örugglega ekki verið hugmyndin með þeirri stjórnsýslunefnd sem skipuð var. Við eigum að geta unnið úr þessu. Það er greinilegt að ekki er reiknað með því að (Forseti hringir.) einstakar nefndir skoði málið heldur (Forseti hringir.) eiga þær að koma að því eftir svo og svo langan tíma.