142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

aðgangur að landbúnaðarmarkaði ESB.

[15:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er litlu nær um sóknarstefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart hinum dreifðu byggðum eftir þessa ræðu. Helst þótti mér mega heyra á forsætisráðherra að það væri bara óæskilegt af okkur að vera að efna til aukinnar atvinnustarfsemi úti um land. Við ættum frekar að flytja þessi störf úr landi. Það væri hluti af því að vera góður alþjóðasinni og aðhyllast alþjóðaviðskipti.

Ég kaupi ekki þau alþjóðaviðskipti að flytja störf úr landi. Ég held að þvert á móti hafi saga okkar sýnt að velsæld okkar hefur aukist þegar okkur hefur tekist að flytja verðmæt störf inn í landið. Það tókst okkur með EES-samningnum árið 1993 þegar íslenskur sjávarútvegur fékk rýmri heimildir til að flytja sjávarafurðir inn á Evrópumarkað og hér jókst vinnsluvirði afurðanna og störf urðu til um allt land.

Með nákvæmlega sama hætti þarf að losa landbúnaðinn og aðra matvælaframleiðslu í landinu úr álögum, hleypa kraftinum lausum og gefa fólki færi á að sækja inn á markaði í öðrum löndum. Íslensk matvælaframleiðsla á mikla framtíð fyrir sér en hún þarf fyrst og fremst á því að halda að hafa ríkisstjórn sem opnar markaði fyrir útflutninginn.