142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

fjárhagsstaða háskólanna.

[15:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé enginn ágreiningur á milli mín og hv. fyrirspyrjanda um þetta mál, þ.e. um mikilvægi háskólastarfsins, rannsóknarstarfsins og þess að háskólar hér á Íslandi eigi í nánu og góðu samstarfi við háskólastofnanir erlendis. Um nokkuð langa hríð hefur verið unnið jafnt og þétt að því að bæta við fjármuni til rannsókna. Samkeppnissjóðirnir eru þar með taldir. Það er því kannski rétt að horfa á kerfið í heild, þ.e. rannsóknarsjóðina og háskólana, en aðalatriðið er að ég held að það sé mjög góður samhljómur þvert á alla flokka um mikilvægi þessa máls. Þegar horft er nú til framtíðar þá reynum við að gera allt sem við getum á næstu árum til að auka fjármagn til þessarar starfsemi.

Virðulegi forseti. Það breytir ekki því, og það er auðvitað hið sorglega í málinu, að staða ríkisfjármála er eins og hún er. Hún er verri en við ætluðum og það þarf auðvitað að leysa það mál vegna þess að annars verðum við ekki fær um að byggja upp eitt eða neitt hér, hvorki í menntamálum, heilbrigðismálum (Forseti hringir.) né velferðarmálum. Þannig er staðan, virðulegi forseti.