142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað það varðar að markmiðið sé ljóst og tvíþætt — ég hélt nú að ég væri að gera stuðningsmönnum frumvarpsins greiða með því að kalla það óljóst. Vandinn er sá að það er tvíþætt. Annars vegar er tilgangurinn að vinna tölfræðiskýrslur. Það er ekki nógu góð ástæða til að ráðast inn á friðhelgi einkalífsins. Þess vegna hef ég sagt frá upphafi: Þetta eru í raun og veru tvö mál. Þetta eru annars vegar viðbrögð við meintu neyðarástandi og hins vegar vinnsla á hagskýrslum.

Ég hef fullan skilning á báðum málum, svo að það sé á hreinu, en ég er ekki hlynntur því, ég er ekki sáttur við að farin sé einhver neyðarleið, sem er hugsuð til að kljást við vandamál eins og stríð og náttúruhamfarir, til að vinna að tveimur markmiðum á sama tíma þar sem annað þeirra er klárlega ekkert neyðarmál. Það liggur klárlega ekkert á því að vinna betri tölfræðiskýrslur umfram það að vinna að skuldavanda heimilanna, það hefði mátt bíða.

Það er rétt sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir segir um það að ég hafi ekki talað fyrir því að flýta þessu máli. Það er vegna þess að þetta mál er ekki nauðsynlegt til þess að kljást við skuldavanda heimilanna. Þetta mál er nauðsynlegt til þess að athuga eftir á hvort aðgerðir stjórnvalda séu rökréttar eða ekki. Það er gott og vel en það flokkast ekki undir það að vera neyðarástand.

Hvað varðar ásakanir um að viðbrögð okkar séu til þess að tefja málið, það er einfaldlega ekki rétt. Ég veit ekki alveg hvernig hægt er að sannfæra fólk um það, með hliðsjón af þingsköpum og því hvernig venjurnar eru hér á hinu háa Alþingi. En ég hef staðið hér í ræðupúlti og komið með nýja punkta í allri minni orðræðu og ég hef eingöngu farið hingað upp til að ræða efnislega þá punkta sem eru mér hjartans mál.