142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að leiðrétta einn smámisskilning. Vissulega vildum við að málið yrði látið niður falla í bili, en eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal veit getur hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjallað um mál án þess að þau séu endilega á þingdagskrá. Það var ekkert því til fyrirstöðu, og ekki geð okkar þingmanna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um að vinna að þessu um helgina eða á hverjum einasta degi fram að þingi í október, það hefði verið algjörlega sjálfsagt. Ég hefði glaður gert það.

Vandinn er sá að við þyrftum að ræða annað mál. Þetta frumvarp er að mínum dómi ónýtt. Það þarf að byrja upp á nýtt og skoða aðrar leiðir. Ef við ætlum að skoða þá aðferð sem ég hef verið að benda á að sé möguleiki, að leita upplýsts samþykkis, krefst það forvinnu áður en við leggjum fram frumvarp. Að vinna þá vinnu milli dagsins í dag og 1. október er sjálfsagt mál, ég er alveg til í það, ekkert mál. Mér liggur ekkert á að fara í frí, virðulegur forseti.

Hvað varðar það að niðurstaðan þurfi að vera trúverðug, já, hún þarf að vera trúverðug ef við erum að tala um almenna hagskýrslu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vék að því áðan að sumir hafa kannski ekki endilega rænu eða áhuga á því eða tíma til að tilgreina sérstaklega hvort þeir vilji vera með í slíku verkefni sem ég hef stungið hér upp á en ég vil benda á að tæknin er til staðar og er þegar í notkun. Tæknin heitir Íslykillinn og RSK-lykillinn. Þessir lyklar eru notaðir til að skila inn skattskýrslum, þeir eru notaðir til að skipta um trúfélög og gera alls konar hluti í stjórnsýslunni. Þetta er ekkert mál, tekur örfáar mínútur, ég gerði þetta sjálfur um daginn.

Sömuleiðis ábyrgist ég að ef ríkið tæki upp svona verkefni mundi það auglýsa sjálft sig frekar vel og frekar hratt.