142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt það hér og nú og dæmt um það hvort þetta brjóti gegn stjórnarskránni eða ekki, en ég hef bent á mörg önnur atriði sem ganga ekkert síður nærri stjórnarskránni. Ég hef nefnt gagnasafn sem er í einni tölu hjá ríkisskattstjóra, allt á einum stað. Ég tel mjög langt gengið eftir að menn veittu heimild til að dæla upplýsingum úr bönkunum, bankaleynd var rofin, inn til ríkisskattstjóra, um vexti, innstæður og allt slíkt. Ég held að menn hafi gengið á ystu nöf þar. Það var líka í kjölfar hrunsins.

Það sem mest er um vert er að við séum vakandi. Hér eru settar inn tillögur til bráðabirgða og ég vona að þær gangi ekki það langt að þær brjóti gegn stjórnarskrá. Ég vona það og treysti því vegna þess að hagsmunirnir hinum megin eru líka mjög miklir. Það er miklir hagsmunir að gæta þess að heimilin geti risið undir þeirri skuldabyrði sem þau búa við og til þess að þau geti risið undir skuldabyrðinni og til að við getum tekið á vanda þeirra þá þurfum við að vita hver hann er. Það eru þeir hagsmunir sem ég hef að leiðarljósi þegar ég skoða þetta og segi að ríkir almannahagsmunir séu fyrir því að koma með þetta frumvarp og þá megi ganga þetta langt gegn stjórnarskránni vegna þeirra ríku almannahagsmuna.

Eins og ég sagði þá er þetta ekki óskafrumvarpið mitt. Þetta er ekki það sem ég vildi gjarnan sjá. Ég vildi sjá að dregið yrði úr þessu frekar en hitt. Kannski ættum við að skoða upplýsingaöflun ríkisskattstjóra í kjölfar þessarar umræðu til að athuga hvort þar sé ekki gengið fulllangt því að hún er ævarandi, enginn tímarammi og allt á einum stað.