142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef allt fer í kaldakol er lítils virði að hafa stjórnarskrá. Það er hlutverk okkar að gæta að almannaheill. Ef fjöldi heimila verður gjaldþrota og ef fólk flýr úr landi í stórum stíl er lítils virði að hafa stjórnarskrá fyrir þá sem eru farnir, eða hvað? Við þurfum því alltaf að vega og meta þá hagsmuni og ég tel að þarna séu almannahagsmunir sem krefjist þess að við fáum upplýsingar um þetta áður en við gerum ráðstafanir. Við gerðum t.d. ráðstafanir á Alþingi um 110%-leiðina. Ég veit ekki einu sinni hvernig hún kom út. Mér er sagt að hún hafi aðallega gagnast hátekjufólki. Við gerum ráðstafanir um alls konar mál.

Ég vil sjá hvernig þetta kemur út og ég vil að það komi réttlátlega út og verði sanngjarnt. Það er væntanlega í samræmi við stjórnarskrána að byrðunum sé rétt deilt og að gæðunum sem við erum að veita sé rétt deilt líka.