142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á stöðu málm- og skipasmíðaiðnaðar í landinu. Staða þeirrar greinar hefur verið sveiflukennd í mörg ár og margt spilað þar inn í. Uppgangur hefur verið víða innan lands í málm- og véltækniiðnaði en smíði stálskipa hér heima er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var og það ræður samkeppni á alþjóðamarkaði mestu um sem hefur reynst erfitt að keppa við, svo sem í Kína, Póllandi og fleiri löndum sem við þekkjum.

Það liggur fyrir að skipafloti landsmanna er að meðaltali orðinn mjög gamall og komið er að endurnýjun í flotanum. Það hefur sýnt sig undanfarin ár að vél- og málmtækniiðnaðurinn hefur verið að styrkjast og eflast mikið sem kemur fram í stórauknum útflutningi á vélasamstæðum til matvælaiðnaðar og annars iðnaðar víða um veröld. En miklir möguleikar eru að skapast á alþjóðamarkaði og hægt væri að efla enn frekar útflutning á íslensku hugviti og verkþekkingu í þessum greinum ef rétt er á málum haldið. Halda verður áfram á þeirri braut að menntamálayfirvöld í landinu í samstarfi við atvinnulífið kynni enn frekar kosti iðnnáms hjá ungu fólki til að mæta aukinni eftirspurn eftir mannafla í þeim greinum. Það eru miklir vaxtarmöguleikar eins og ég hef nefnt ef hlúð er vel að greininni. Í Skandinavíu er litið á málmiðnaðinn sem hryggsúluna í atvinnulífinu.

Ég tel því brýnt að stjórnvöld geri allt til að leggjast á sveif með þessum greinum, efli menntun og vinni að því að gera þær greinar samkeppnisfærar á alþjóðamarkaði og tryggi starfsumhverfi hennar til framtíðar. Það er hagur okkar allra, gjaldeyrissparnaður og ekki veitir af þegar verið er að vinna að því að losa gjaldeyrishöft.