142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðum um lýðræði er stundum talað um ægivald meiri hlutans eða á ensku, með leyfi forseta, „tyranny of the majority“. Hugtakið er einfalt, þegar meiri hlutinn ræður einfaldlega hefur hann kúgunarvald yfir minni hlutanum. Þetta er klassískt vandamál sem hin ýmsu stjórnkerfi hafa átt við með ýmsum hætti.

Dæmi um hvernig brugðist hefur verið við þessu vandamáli er að gefa borgurum landsins ákveðin réttindi, svo sem tjáningarfrelsi, félagafrelsi, friðhelgi einkalífs og rétt á sanngjarnri málsmeðferð. Tilgangur þessara réttinda er meðal annars að forðast kúgun meiri hlutans yfir minni hlutanum.

Stjórnarflokkarnir fengu 51,1% atkvæða í seinustu kosningum, 48,9% atkvæða fóru til annarra flokka. Samt hafa stjórnarflokkarnir allt valdið og það eina sem minni hlutinn hefur er möguleikinn á því að tefja mál. Þessi orð eru ekki meint sem afsökun fyrir málþófi heldur vil ég benda á að stjórnarflokkarnir sjálfir taka óhjákvæmilega þátt í þessu með því að taka sem minnstan þátt í umræðum.

Ég hitti sérstaklega háttvirtan þingmann á göngunum í 2. umr. um hagstofumálið. Við töluðum saman í mínútu eða svo um frumvarpið og vorum ósammála, en við töluðum ekki um neitt sem hafði komið fram í pontu svo að ég bauð honum í pontu til að ræða það en sá annars sérstaklega háttvirti þingmaður vildi ekki tefja málið. Efnisleg, málefnaleg og nauðsynleg umræða birtist honum sem eintóm töf og það versta er að það er rétt hjá honum. Samspil meiri hlutans og minni hlutans á Alþingi einkennist bæði af áhugaleysi meiri hlutans á að ræða við minni hlutann og sífelldum endurtekningum og málalengingum af hálfu minni hlutans. Það er vítahringur sem útskýrir að miklu leyti að mínu mati vantraust almennings gagnvart okkur. Ef minni hlutinn hefði eitthvað annað en þingskapaleikfimi til að hafa áhrif á gang mála, ef ægivald meiri hlutans væri ekki svo yfirþyrmandi þá fullyrði ég að umræður á hinu háa Alþingi væru af mun hærri gæðaflokki og hver veit, kannski gætum við þá öll greitt atkvæði um hagstofumálið samkvæmt einlægri sannfæringu eftir einlægar rökræður um efnisleg atriði í samræmi við tilætlan kjósenda.