142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Frú forseti. Nú liggja fyrir mikilvægar niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um ástæður sem búa að baki litlu trausti til Alþingis.

Traust er mjög smitandi. Sjálfstraust er líka smitandi, sjálfstraust sem fagnar mörgum sjónarmiðum og hvílir á tilgangi starfa okkar. Spyrja má: Hver er hinn raunverulegi tilgangur þingmennsku? Hlutverk þingmanna er að vera þjónar lýðræðisins, lýðræðis sem snýst um samtal, byggir á hlustun og skapar um leið traust. Því miður endurspeglar rannsókn Félagsvísindastofnunar vonbrigði kjósenda með starfshætti fulltrúa sinna á Alþingi. Niðurstöðurnar sýna að kjósendur eru óánægðir með vinnulag þingmanna, lýsa vonbrigðum með orðræðu í þingsal og lýsa sérstökum vonbrigðum með áherslur þingmanna á gífuryrði og ágreining í orðum sínum. Ljóst má vera að almenningur hefur ekki áhuga á gífuryrðum og ágreiningi.

Ég hvet hv. þingmenn til að vinna markvisst að umbótum á grundvelli umræddrar rannsóknar. Tökum málið í eigin hendur, sameinumst um að bæta starfshætti þingsins, verum rausnarleg á traust hvert til annars. Þannig eflum við traust almennings til Alþingis.