142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Frá því í vor hafa um 70 ferðir Herjólfs fallið niður í Landeyjahöfn. Skipið hefur ekki siglt þá daga sem ferðir hafa fallið niður í Þorlákshöfn þar sem öll aðstaða er fyrir hendi til að taka á móti skipinu og farþegum þess. Á sama tíma falla niður fjölmargar ferðir flugs til Vestmannaeyja. Vestmannaeyingar upplifa sig kannski í fyrsta skipti einangraða. Óöryggið í samfélaginu er orðið óþolandi, sjúkrahúsið er á gjörgæslu, samgöngurnar í ólagi, lögreglan þarf að sofa heima á nóttunni og sjúkraflugið kemur frá Akureyri. Ef maður þarf sjúkraflug til Vestmannaeyja tekur 50 mínútur að fljúga þangað áður en sjúklingurinn fer í 25 mínútna flug á sjúkrahús í Reykjavík.

Það má því segja að ástandið fyrir Vestmannaeyinga sé algjörlega óviðunandi. Við verðum að vinna að því að bæta úr fyrir þetta 5 þús. manna samfélag sem framleiðir útflutningsvörur fyrir milljarða og aftur milljarða viku eftir viku allt árið um kring. Það er afar mikilvægt að samfélagið í Vestmannaeyjum fái að njóta þess afraksturs sem það leggur til samfélagsins.

Ég ræði þetta hér vegna þess að nú fer sá tími í hönd þar sem gera má ráð fyrir að allt að 40% af ferðum skipsins muni falla niður. Við þurfum að bæta úr fyrir Eyjamenn, í samgöngum þeirra inn í framtíðina.