142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í síðustu viku kynnti hæstv. utanríkisráðherra þá ákvörðun sína að leysa upp samninganefndir um aðild að Evrópusambandinu. Mér fannst hæstv. ráðherra að vísu helst til frekur til valdsins og tel að hann hefði átt að bera ákvörðunina undir Alþingi. En það sem kom fram í skýrslu ráðherrans var svolítið haltu mér/slepptu mér ákvörðun því að enn verður Evrópusambandið nánasti samstarfsaðili okkar í utanríkismálum. Eftir því sem helst mátti skilja á hæstv. ráðherra á að taka upp tvíhliða viðræður um alla þá þætti sem ekki eru í EES-samningnum.

Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu hafði ekki bara í för með sér samstarf ráðherra og embættismanna við starfsfélaga þeirra innan sambandsins heldur einnig samstarf þingmanna. Tvisvar á ári eru haldnir svokallaðir COSAC-fundir. Þá samráðsfundi sitja sex þingmenn frá hverju þjóðþingi aðildarríkjanna og frá Evrópuþinginu og þrem þingmönnum umsóknarríkja svokallaðra er boðið á þessa fundi. Íslenskir þingmenn hafa sótt þessa fundi, alla vega síðasta kjörtímabil. Einnig er starfandi sameiginleg þingmannanefnd Evrópuþingsins og Alþingis sem hittist tvisvar á ári.

Mig langar, vegna þessa nýja ástands sem komið er upp, að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, Birgi Ármannsson, hvort og þá hvernig þessu samstarfi þingsins verði hagað þegar við erum nú umsóknarríki án samninganefndar. Verður íslenskum þingmönnum áfram boðið að sitja COSAC-fundi? Kannski ekki síður: Munu þeir þekkjast það boð?

Í annan stað: Verða einhverjar breytingar á samstarfi Evrópuþingsins og Alþingis og þá hverjar?