142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þótt auðvitað í símskeytastíl sé í þessu risavaxna máli, að ræða það í fáeinar mínútur af minni hálfu og umræðan í hálftíma alls. Ég læt nægja að segja um þetta mál almennt að hér er á ferðinni nokkuð óumdeilanlega eitt allra stærsta og afdrifaríkasta verkefni sem eftir stendur frá hruni, þ.e. að vinda ofan af fjármagnshöftunum og gera upp bú gömlu bankanna og losa þær gríðarlegu fjárhæðir sem og eftirstöðvar gömlu snjóhengjunnar út úr hagkerfinu að því marki sem eigendur kjósa að fara með fjármunina í burt þegar þeir geta það. Þetta sé gert þannig að það ógni ekki gjaldeyris- og fjármálastöðugleika né ofbjóði greiðslujöfnuði og greiðslugetu þjóðarbúsins.

Ég ætla tímans vegna að beina nær einvörðungu sjónum að því hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórn standa að eða hyggjast standa að umgjörð og skipulagningu vinnu á þessu sviði. Ég geri það að gefnu tilefni. Mér hafa þótt yfirlýsingar frá ríkisstjórn nokkuð misvísandi og það eru fleiri en ég sem eiga erfitt með að átta sig á því hvernig er verið að vinna að þessu, samanber umfjöllun fjölmiðla um hver sé að gera hvað eða ekki að gera hvað og hvar umboð og ábyrgð liggi. Ég ætla því að nota tíma minn fyrst og fremst í að leggja skýrar spurningar fyrir hæstv. fjármálaráðherra og ég hef aðvarað hann sem og aðra um væntanlegt efni þeirra. Hefst þá lesturinn.

Í fyrsta lagi: Er starfandi formlegur stýrihópur ráðherra, seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlits eins og var í tíð fyrri ríkisstjórnar sem ber yfirábyrgð og stýrir verkefninu? Hefur slíkur hópur fundað reglulega?

Í öðru lagi: Hverju sætir að þverpólitísk samráðsnefnd um losun gjaldeyrishafta sem lék mikilvægt hlutverk í tíð fyrri ríkisstjórnar hefur ekki verið kölluð saman í þrjá mánuði rúma? Nefndin mun hafa fundað síðast í tengslum við komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í júníbyrjun og ekki verið kölluð saman síðan. Er slíkri nefnd ætlað áframhaldandi hlutverk? Má vænta þess að hún verði kölluð saman á ný eða ætlar ríkisstjórn að haga samráði flokka einhvern veginn öðruvísi eða alls ekki viðhafa neitt þverpólitískt samráð?

Í þriðja lagi: Hefur verið tekin afstaða til þess hvort íslensk stjórnvöld æski áframhaldandi starfa samráðsnefnda ráðuneyta, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og Evrópska Seðlabankans? Hér er átt við það sem á enskunni heitir Ad Hoc Working Group on the Removal of Iceland's Capital Controls. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið og Evrópski Seðlabankinn telja brýnt, það hef ég upplýsingar um, að þessi ad hoc hópur fái endurnýjað pólitískt umboð frá nýrri ríkisstjórn eigi hann að starfa áfram. Hefur það umboð verið veitt eða verður það veitt?

Í fjórða lagi: Hvernig sér ráðherra fyrir sér hlutverk Seðlabankans í þessu og hvernig er samskiptum við hann háttað? Spurt er í ljósi þess að Seðlabankinn fer með framkvæmd haftanna og gjaldeyrismarkaðinn, varðveitir gjaldeyrisforðann og svo framvegis. Annast Seðlabankinn hinn faglega undirbúning í samvinnu við Fjármálaeftirlitið, ráðuneyti og ríkisstjórn eins og var í tíð fyrri ríkisstjórnar þó að vissulega hafi afnámsáætlunin sjálf sem slík verið endanlega afgreidd af ríkisstjórn og á ábyrgð hennar? Eða ætlar núverandi ríkisstjórn í meira mæli að taka þessi mál yfir sjálf?

Og í fimmta lagi og nátengt: Er að vænta nýrrar áætlunar um losun hafta nú í september eins og forsætisráðherra boðaði í viðtali við fréttaveituna Bloomberg 27. maí síðastliðinn? Ef svo er, hvernig hefur þá verið unnið að undirbúningi þeirrar nýju áætlunar? Í nefndu viðtali kom fram að hin nýja áætlun mundi byggjast á hugmyndum forsætisráðherra. Það mundi ekki taka langan tíma að klára verkið, forsætisráðherra hefði ákveðnar hugmyndir til að leysa snjóhengjuvandann og boðað var að þessi nýja áætlun mundi birtast í september. Þetta var sagt í maí. Er þetta að koma, mun þetta standast, fáum við að sjá hina nýju áætlun nú í septembermánuði?

Í sjötta lagi: Hefur verið skipaður sá sérfræðingahópur, annaðhvort blanda af innlendum og erlendum sérfræðingum eða eingöngu innlendir, sem aðstoðarmaður forsætisráðherra Jóhannes Þór Skúlason boðaði í viðtölum við fjölmiðla 8. ágúst síðastliðinn að yrði kynntur til sögunnar í upphafi haustþings? Hann hefði það hlutverk, eins og sagði í umfjöllun Morgunblaðsins, að uppfæra heildaráætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Í sjöunda lagi hefur skipan nokkurra trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar sætt umtali í fjölmiðlum spurningar um hæfi eða vanhæfi. Hefur verið gerð úttekt á vegum ríkisstjórnarinnar á öllum trúnaðarmönnum hennar í þessum störfum, til dæmis af Fjármálaeftirlitinu? Er nefnd um fjármálastöðugleika starfandi? Er hún virk? Fundar hún reglulega og hefur hún hlutverk í þessum efnum?

Og loks, frú forseti, treystir fjármála- og efnahagsráðherra sér til að segja eitthvað á þessu stigi mála um hið margnefnda svigrúm, það er á mannamáli hagnað sem fullyrt hefur verið að komi í hlut ríkisins við uppgjör gömlu bankanna? (Forseti hringir.) Og hvort svigrúmið dugi upp í 250–300 milljarða skuldaniðurfærslu skyldu peningarnir skila sér og ákveðið verði að nota þá í það?