142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Frú forseti. Ég minntist aðeins á það í fyrri ræðu minni að mjög mikilvægt væri að við næðum í þessu ferli öllu saman, þessu viðkvæma og erfiða ferli, að efla líka traust á íslensku efnahagslífi. Þetta finnst mér mikilvægt að tala um vegna þess að mér fannst umræðan í kosningabaráttunni síðustu ekkert endilega til þess fallin þar sem svolítið mikið var verið að uppnefna erlenda fjárfesta eftir ýmsum fuglategundum, hrægammar og fleira. Svoleiðis umræða gagnvart kröfuhöfum og erlendum krónueigendum er kannski ekki endilega til þess fallin, að mínu viti, að efla traust á íslensku efnahagslífi. Ég hvet því til þess að við nálgumst þetta öðruvísi og kannski af meiri sanngirni gagnvart erlendum fjárfestum. Ég held einnig að sá samtakamáttur sem við getum nýtt hér í þingsal strax núna, vegna þess að það eru allir sammála um markmiðin í þessu, ef við náum að efla hann og ef hæstv. ríkisstjórn nær að efla hann og við náum að efla hann öll saman, þá muni það líka nýtast til þess að við komum út úr þessu ferli með meira traust á íslensku efnahagslífi. Ef þetta ferli fer allt í bál og brand þá minnkar traustið.

Ég held líka, svo ég taki nú undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, að mjög mikilvægt sé að skoða hvað við ætlum svo að gera. Af hverju erum við með þessi höft? Það er vegna þess að við búum við krónu sem fólk treystir ekki í alþjóðlegum viðskiptum. Ef það er markmiðið þegar við komum út úr höftunum, vonandi farsællega, að búa við fljótandi krónu án hafta þá þarf að undirbúa það ákaflega vel og rökstyðja það mjög vel að það geti gengið því annars náttúrlega breytist öll krónueign meira eða minna í snjóhengju, líka innlend. Við verðum auðvitað að komast út úr þessu ferli þannig. Ég held að við verðum að byggja upp útflutningsatvinnuvegi, við verðum að hafa gjaldmiðilsstefnu. Ætlum við að búa við áframhaldandi krónu eða ekki? Það eru margar svona stórar spurningar sem við verðum að takast á við líka.