142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hefja umræðu um afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna. Það er gríðarlega mikilvægt efnahagslegt málefni fyrir þjóðina alla, það er klárt mál.

Ég vil jafnframt þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr svör. Þar var stórt spurt og hann svaraði því mjög vel og skilmerkilega og sagði að vandað yrði til verka. Það er mikilvægt að okkar hæfasta fólk fáist til þess að leiða þetta mál.

Ég vil aðeins staldra við lokahlutann í fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem snýr að svigrúminu. Það er óumdeilt að höftin hafa hér neikvæð áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar og samkeppnishæfni hennar. Auk óæskilegs viðskiptakostnaðar, minni hagvaxtar en ella, hamla fjárfestinga o.s.frv. eru höftin á skjön við alþjóðlegar skuldbindingar eins og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Endurheimtur kröfuhafa eru háðar einhverri óvissu sem snýr að verðmæti eignanna sem hafa verið að aukast eftir því sem betur innheimtist en ávinningurinn verður verulegur. Eins og fram kom áðan snýr þetta að snjóhengjunni, en það tengist óneitanlega áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna skuldavanda eins og komið hefur fram. Þegar við leysum það mun það auka ráðstöfunartekjur heimilanna samhliða því að afnám haftanna mun stuðla að aukinni fjárfestingu, (Forseti hringir.) auknum hagvexti, lækkun vaxtagreiðslna hins opinbera og viðreisn velferðarkerfisins.