142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil láta þess getið undir lok þessarar umræðu að í dag verður birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins greinargerð sem lög gera ráð fyrir að birt sé um framgang áætlunar um losun hafta. Þetta er það sem snýr að því sem gerst hefur og er kominn tími á að birta slíka greinargerð. Hún verður birt síðar í dag. Þar verður komið inn á hvernig gengið hefur að draga úr þrýstingi, m.a. úr aflandskrónuþrýstingnum, en að öðru leyti ætla ég að vísa til þeirrar skýrslu.

Hér er spurt: Hvert eiga kröfuhafar að snúa sér? Það hefur í sjálfu sér ekkert breyst í þeim efnum, ekki neitt. Seðlabankinn sér um framkvæmd gjaldeyrishaftanna. Það er sagt að kröfuhafar hafi sýnt mikið frumkvæði og sýnt á sín spil. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það finnst mér ekki vera tilfellið. Það hefur jú verið kallað eftir því að fá samtal en í grundvallaratriðum hefur ekkert breyst um það við hverja kröfuhafar eiga að tala. Þeir eiga að tala við þann sem framkvæmir gjaldeyrishöftin.

Varðandi samráð stjórnmálaflokkanna hef ég tekið það fram að um það mun gilda hið sama og átt hefur við fram til þessa. Við hyggjumst, undir forustu skrifstofustjóra úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, viðhalda því samráði.

Mönnum finnst sem lítið hafi gerst hér undanfarna 100 daga eða svo og þá segi ég bara á móti: Hefur ekki bara of lítið gerst frá árinu 2008 í þessu máli? Er ekki staðreyndin sú að við höfum lítið annað gert en að herða á höftunum? Er ekki staðreyndin sú að allt síðastliðið kjörtímabil hefur ekki verið komið á neinum samtalsþræði við kröfuhafana eða þróuð einhver aðferðafræði sem er að ganga upp? Og er þess vegna ekki rétt að anda aðeins með nefinu í jafn stóru og mikilvægu máli og þetta er og segja við sjálfan sig: Þegar við látum til skarar skríða er eins gott að við séum sammála um (Forseti hringir.) það plan sem þar á að vera til grundvallar.

Eitt get ég þó sagt, þar hefur samantekið verið unnið meira starf en ég hafði áttað mig á sem formaður í stjórnarandstöðuflokki þrátt fyrir að hafa haft greiðan aðgang að samráðsnefndinni.