142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[14:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa umræðu. Ég þakka honum líka fyrir þennan ríka áhuga sem hann hefur á eignarréttinum og tilvísanir meðal annars í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Óháð því minni ég hv. þingmann á að hæstv. ráðherrum ber líkt og öðrum í landinu að fylgja lögum. Hæstv. ráðherra hafa ekki umboð til ákveðinna aðgerða nema það sé veitt í gegnum lagasetningu.

Beint að umræðunni: Hér er rætt um eignarrétt lántakenda. Áður en lengra er haldið held ég að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum þessi mál, sem þingið hefur nú rætt mjög lengi, að við ræðum þau af mikilli yfirvegun og leitum sameiginlegra úrbóta og úrræða til að skoða alla kosti og finna lausnir fyrir þá sem helst þurfa á að halda. Auðvitað höfum við, eins og hv. þingmaður og þingheimur allur þekkir, þegar lagt drög að þeirri vinnu í þeirri þingsályktun sem var samþykkt hér í sumar þar sem hafinn er undirbúningur að því hvernig vinna skuli í heild að skuldamálum heimilanna. Og nú þegar hafa verið samþykkt lög, líkt og hv. þingmaður kom inn á, sem ég mælti fyrir á sumarþingi, um breytingu á einkamálum sem miða að því að hraðað verði dómsmálum sem lúta að ágreiningi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Þau lög gilda út árið 2014 líkt og þingheimur þekkir.

Vegna ótal upplýsinga fyrir hv. þingmann og þingmenn alla stendur nú yfir vinna í innanríkisráðuneyti og í velferðarráðuneyti. Við höfum átt samstarf í allt sumar, annars vegar við að kanna hvaða leiðir séu færar til að gera eigendum yfirveðsettra eigna kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið stendur ekki undir og hins vegar er verið að skoða hvernig eignalausum einstaklingum verður gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Þetta er mikilvægt og skiptir miklu máli. Líkt og þingheimur þekkir er miðað við að þessar tillögur verði lagðar fram núna á haustmánuðum og síðan kynntar þegar úrlausn þessara mála liggur fyrir.

Virðulegur forseti. Það hefur verið mikið rætt og hv. þingmaður ræddi sérstaklega hér fyrir nokkru um sýslumenn í þessari umræðu. Oft beinast spjótin sérstaklega að þeim. Að hluta til er það auðvitað alveg skiljanlegt þar sem þeir framkvæmda aðfararbeiðnir og nauðungarsölur. Hv. þingmaður kallaði hins vegar þessa sýslumenn alla í umræðu hér fyrir nokkru „sýslumenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hæstv. innanríkisráðherra“. Ég minni hv. þingmann á að innanríkisráðherra hefur ekki heimildir eða vald til að íhlutast í þessar aðgerðir sýslumanna. Slíkar heimildir eru einfaldlega ekki til staðar. Það gilda eins og ég sagði áðan í landinu lög og reglur og það er að hluta til sýslumanna að framfylgja þeim. Þegar tveir aðilar, þ.e. lánveitandi og lánþegi, gera með sér samning leggur lánþeginn oftar en ekki húsnæði sitt að veði. Þegar ekki er staðið við umsamdar greiðslur hefur lánveitandinn rétt, samkvæmt samningi, til að gera kröfu í þessa sömu eign eins og þekkt er. Sýslumenn hafa heldur engan rétt til þess að neita að framkvæma slíka beiðni eða nauðungarsölu ef hún er komin fram með löglegum hætti. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir. þannig að líkt og ég hef áður rætt við hv. þingmann þá þarf sérstaka lagasetningu ef þingheimur vill breyta þessu. Það er hins vegar mjög umdeilt hvernig slík lagasetning gæti verið. Ef hún væri tímabundin hafa flestir löglærðir einstaklingar áhyggjur af því að það mundi koma mjög illa út gagnvart jafnræði þeirra sem lenda þá í aðgerðunum þegar þær taka gildi og gagnvart þeim sem hafa lent í þessari stöðu fyrr. Það er því nokkuð sem við þurfum að velta fyrir okkur.

Síðan er önnur framtíðarleið sem ég hef einnig rætt og hv. þingmaður. Það er sú leið að skoða hvernig lánasamningar eru í landinu, hvort hægt væri að bjóða lánþegum aukið val er varðar lánasamninga. Það mundi að sjálfsögðu geta haft áhrif á kjör lánanna en gæti verið ákveðin leið til að einstaklingar gætu valið hvaða lánsform þeir kysu og þá gæti veðið tekið mið af því og gerð lánasamninga einnig. Það getur hins vegar haft, eins og bent hefur verið á, mikil og afdrifarík áhrif gagnvart til dæmis þeim sem eru að taka lán fyrir fasteign í fyrsta skipti.

Það er því að mörgu að huga í þessu.

Það er heldur ekki alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að ekki hafi verið brugðist við. Það er rétt að minna í því samhengi á að Fjármálaeftirlitið hefur áður beint þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að bíða með aðfarir þangað til niðurstaða liggur fyrir í dómum.

Hæstv. forseti. Ég mun fá tækifæri til að koma aðeins frekar inn á það í síðara svari mínu en ítreka og árétta ánægjuna með þessa umræðu hér en hvet okkur til að taka hana á þeim forsendum að við séum í raun ekki að vekja vonir sem síðan er ekki hægt að uppfylla heldur að við náum að vinna þannig með málin að það nýtist þeim sem helst þurfa á því að halda.