142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[14:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vekja máls á þessu efni og hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Það er rétt að þeim tilmælum hefur verið beint til fjármálafyrirtækjanna að ekki sé farið í aðgerðir gagnvart heimilum þar sem um er að ræða lán sem deilur eru um lögmæti hjá. Ég held að það sé almennt talað varhugavert að vera árum saman með eitthvert allsherjarbann við nauðungarsölu vegna þess að við verðum að horfast í augu við að það er misjafn sauður í mörgu fé og auðvitað eru þess dæmi að einstaka lántakendur hafi engin skil gert á skuldbindingum sínum, ekkert inn á þær greitt, jafnvel leigt út eignirnar sem þeir hafa þannig í engum skilum staðið með og jafnvel gengið illa um þær.

Almennt talað verður möguleikinn á nauðungarsölu að vera fyrir hendi þó að hann eigi auðvitað ekki að fara fram þegar lántakinn hefur staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem hann hefur getað og ágreiningur er um lögmæti lánanna.

Aðgerðir þær sem ríkisstjórnin hefur boðað í skuldamálum vekja hins vegar ákveðnar spurningar um hvort rétt sé að heimila almennt nauðungarsölur næstu mánuði. Þannig háttar til að forsætisráðherra landsins hefur lýst því yfir að lækka eigi verðtryggð lán heimilanna í landinu um nærfellt 20%, á allra næstu mánuðum.

Það bendir til að fjölmörg heimili sem nú geta ekki staðið í skilum, þeir sem eru kannski að missa heimili sín á uppboðum, muni geta það eftir að búið er að framkvæma þessar yfirlýsingar stjórnvalda. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort ekki sé rétt að fresta almennt nauðungarsölum þangað til að búið er að leiðrétta skuldir tugþúsunda heimila í landinu svo verulega sem ætlunin er vegna þess að þessi nýja ákvörðun ríkisstjórnarinnar kalli einfaldlega á það að almennt sé nauðungarsölum frestað þangað til búið er að lækka, um þessa 200 milljarða, (Forseti hringir.) skuldir heimilanna í landinu.