142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[15:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Flest af því sem ég hefði viljað ræða um hefur komið fram og því langar mig til að ræða um hóp sem sjaldan er talað um. Það eru leigjendur sem lenda í þeirri stöðu að leigja húsnæði sem fer á uppboð. Þeir hafa enn minni réttindi, þeir vita ekki af því að húsið er að fara á uppboð og vakna bara einn morguninn við það að sýslumaður er kominn inn á gafl hjá þeim.

Mig langaði að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort verið sé að skoða stöðu þessa hóps í ráðuneytinu eða hvort gert sé ráð fyrir að tekið verði á þeim bráðavanda í gegnum tillögurnar sem von er á úr öðru ráðuneyti um heildræna stefnu varðandi húsnæðismál. Ég hef verulegar áhyggjur af þessum hópi af því að hann hefur svo ofboðslega slæma réttarstöðu. Mig langaði bara að heyra hvort þessi hópur eða þessar tilteknu aðstæður hefðu eitthvað verið ræddar í ráðuneytinu.

Annars langar mig bara að þakka fyrir og ég vona að fundnar verði lausnir á þeim hrikalegu aðstæðum sem margar fjölskyldur lenda í og það er að missa heimili sitt, hafa kannski engar aðrar úrbætur og lenda jafnvel á götunni.