142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[15:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér mikilvægt viðfangsefni, hvernig hagsmunir lántakenda eða neytenda í fjármálaþjónustu skuli tryggðir. Auðvitað eiga þeir að vera tryggðir í gegnum neytendalöggjöf og löggjöf á fjármálamarkaði, meðal annars um eðlilega viðskiptahætti, eftirlit með því o.s.frv. Með því er auðvitað verið að reyna að tryggja eignarrétt á báða bóga ef við viljum kalla það svo.

Ég er hins vegar svolítið á svipuðum slóðum og síðasti ræðumaður, ég held að það sé vandasöm nálgun að stilla hér eignarrétti upp gegn eignarrétti eins og um einsleit hugtök eða fyrirbæri sé að ræða í þessu sambandi. Málið er á vissan hátt flóknara en það. Það ber að halda því til haga að búið er að gera ýmislegt á undanförnum árum, sem viðbrögð við þessu skelfilega hruni og hremmingum almennings þar af leiðandi, til að styrkja stöðu neytenda eða lántakenda. Það hefur verið gert með því að gera verulegar úrbætur á neytendalöggjöfinni og styrkja stöðu neytenda þar með úrbótum á fjármálalöggjöfinni sjálfri. Þar má nefna líka að stytta fyrningarfrest gjaldþrota fyrir þá sem eiga ekki annarra kosta völ en að fara þá leið o.s.frv.

Ég held að lærdómurinn sé sá að staða lántakenda, neytenda á fjármálamarkaði, hafi verið allt of veik á Íslandi og ójafnræði mikið með aðilum, aðstöðumunurinn of mikill.

Ég tek líka undir það að í ljósi þeirra miklu væntinga sem nú hafa verið gefnar, um verulega viðbótarúrlausn fyrir tugþúsundir heimila og beina lækkun skulda, kemur eðlilega upp aftur og á nýjan leik krafan eða hugsunin um það hvort ekki sé skynsamlegt að frysta ástandið einhvern veginn á meðan þannig að menn lendi ekki í þeim ósköpum að fara út í fullnustu- og nauðungaruppboð kannski rétt áður en þeir komast upp á yfirborðið með hökuna og sjá fram úr sínum skuldavanda ef það gengur eftir.

Í þessu sambandi er líka mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra hraði þeirri vinnu sem hún upplýsti hér um að væri í gangi. Hún gerir lítið gagn ef hún kemur eftir hálft ár eða ár (Forseti hringir.) eftir að allt er um garð gengið. Það er mjög mikilvægt að fá í það botn strax á þessu hausti: Er skynsamlegt að grípa til (Forseti hringir.) einhverra slíkra aðgerða, tímabundið, frysta stöðuna þangað til botn fæst í móður allra kosningaloforða?