142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um tillögu til rökstuddrar dagskrár þar sem óskað er eftir að þessu máli verði vísað frá. Sá minni hluti í allsherjar- og menntamálanefnd sem flytur þessa tillögu er allur tilbúinn að vinna að lausnum á skuldavanda en við meðferð nefndarinnar hefur komið í ljós að umrætt frumvarp hefur engan sérstakan tilgang í sambandi við það að leysa skuldavandann, heldur á að fylgjast með hvernig mál þróast í framhaldinu af þeim aðgerðum sem eru boðaðar á þessu ári.

Með tilliti til þess að vafi leikur á því hvort þarna sé gengið á stjórnarskrárvarin réttindi varðandi friðhelgi einkalífsins og vegna þess að markmiðið er óskýrt og vegna þess að meðalhófs er ekki gætt þar sem gengið er mjög langt í því að sækja upplýsingar varðandi þetta mál — langt umfram það sem er hægt að sjá að tengist þeirri úrvinnslu sem þarna á að eiga sér stað — hefur verið óskað eftir því að tekinn verði lengri tími til að vinna að þessu máli og reynt að ná betri sátt um varanlega tölfræðivinnslu varðandi skuldavandann. (Forseti hringir.) Óskað er eftir því að þessu máli verði vísað frá og ég styð þá tillögu.