142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég lýsi því jafnframt yfir að ég er tilbúin að vinna á hverjum einasta degi fram að 1. október til að tryggja að hægt sé að breyta frumvarpinu þannig að við getum fallist á það út frá vandaðri stjórnsýslu, að við þurfum ekki að upplifa það að þessi lög verði rekin aftur heim til föðurhúsanna sem gölluð. Það þarf bara eitt af fyrirtækjunum sem verið er að krefja um upplýsingar að skjóta málinu til dómstóla og ef svo fer verður mikil töf. Það er mikil hætta á að þetta komi hreinlega til með að tefja það sem ríkisstjórnin er að leitast við að gera ef þetta verður samþykkt hér í dag.

Ég mun því styðja þessa tillögu heils hugar og jafnframt veit ég að það er vilji mjög margra þingmanna að tryggja að lögin verði almennileg.

Hættum að vera með leirburð á þessum bæ.