142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Með því að samþykkja þessi lög erum við að heimila að safnað verði upplýsingum um öll lán einstaklinga í landinu. Ekki er nóg með það heldur verður líka skoðað í hvaða tilgangi lánin voru tekin og hvað gert var við peningana, hvernig sem það á nú að gagnast hinni svokölluðu skuldajöfnun.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af er hættan á því að þessi upplýsingasöfnun misfarist, að dulkóðunin afhjúpist. Þetta er persónurekjanlegt. Það eru mér mikil vonbrigði að við gátum ekki farið að þeirri tillögu að vinna málið betur og komið með tillögur að nýjum lögum sem hefðu tryggt að þessar persónuupplýsingar yrðu ekki rekjanlegar.

Það er mikil ábyrgð þeirra þingmanna sem segja já hér í dag. Ég segi nei.