142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[15:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Nú á ég sæti í þessari ágætu hv. nefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, og glöggir lesendur taka eftir því að ég rita ekki undir nefndarálitið. Ástæðan er b-liður 12. gr. þar sem lagt er til að lífeyrissjóðum verði heimilað að hafa meiri mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga en nemur 10% í eitt ár í viðbót.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu eru í gangi viðræður um að samræma lífeyrisréttindi allra landsmanna. Þar hefur lengi verið ákveðin þrískipting sem ég er búinn að benda á ótal sinnum í gegnum tíðina úr þessum ræðustól. Það er B-deildin, LSR, sem er mjög góð lífeyrisréttindi, ekki margir með mikinn lífeyrisrétt, þ.e. ekki háan, af því að það var borgað af lágum launum, en þar er líka fólk sem er með mjög góðan lífeyrisrétt, ótrúlega góðan. Þar er skuldbinding ríkisins um 450 milljarðar sem ríkið hefur lofað að greiða. Það er reyndar ekki í fjárlögum þannig að það er ekki í mínum huga ríkisábyrgð á þeim milljörðum vegna þess að samkvæmt stjórnarskrá má ekki greiða neitt fé úr ríkissjóði nema þess sé getið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ef til stykkisins kæmi og einhver fjármálaráðherra í framtíðinni stæði frammi fyrir því að greiða þetta og ætti ekki aur þá segir hann bara: Nei, það er ekki í fjárlögum eða fjáraukalögum. Honum er ekki heimilt að greiða það. Þessi skuldbinding fellur á með miklum þunga árið 2024 svona um það bil, tugir milljarða á hverju einasta ári í nokkra áratugi.

Þetta hafa menn lítið rætt um en spurningin er samt þarna. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn vilji standa við kjarasamninga opinberra starfsmanna sem eru þá að baki þessu og svo eru náttúrlega eignarréttarákvæði í stjórnarskránni sem tryggir þessa eign lífeyrisþeganna.

Svo er það A-deildin sem átti að standa undir sér. Það er meira að segja sagt í lögum að stjórnin eigi að gera tillögu til launagreiðenda um hækkun á iðgjaldi ef skuldbindingin dugi ekki til. Það hefur ekki verið farið að þessum lögum. Stjórnin hefur ekki farið að þessum lögum og þess vegna er iðgjaldið enn þá 15,5% inn í A-deildina þó að það þyrfti að vera 19,5%. Af þessum sökum vantar þarna 61 milljarð. Þetta eru litlu tölurnar í fjárlögum sem er því miður allt of lítið horft á. Menn geta rifist hérna um 10 milljónir eða eitthvað slíkt en þetta er sem sagt 61 milljarður í A-deildinni og hún átti að standa undir sér.

Síðan er Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga sem er svipaður og B-deildin, með mjög góðan lífeyrisrétt en oft og tíðum liggja lág laun til grundvallar, og þar vantar 27 milljarða að mig minnir, það eru alla vega einhverjir tugir milljarða — ég þyrfti að fletta því upp.

Ég vil að menn horfist í augu við þennan veruleika. Ég vil að menn sjái skuldbindingar ríkisins. Ég hygg að í þeirri umræðu sem er um samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði, bæði opinberra og annarra, eigi menn að vita af þessu — menn vita náttúrlega af þessu en að það sé öllum ljóst, líka almennum sjóðfélögum, að skuldbindingin er þvílík eins og ég nefndi. Auðvitað vita þetta flestir sem hafa lesið ársskýrslu LSR.

Fyrir utan þessi tvö kerfi, B-deildina og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og svo A-deildina, sem hvort tveggja nýtur ríkisábyrgðar á réttindunum, þ.e. réttindin eru föst en iðgjaldið breytist og það er ríkið og ríkisstofnanir sem eru launagreiðendur og bera ábyrgð á eða eiga að borga hækkað iðgjald, þá eru hinir almennu sjóðir sem voru stofnaðir 1969 í kjarasamningum og svo sett í lög 1974 að skylda væri að greiða í þá. Þeir hafa ekki svona bakhjarl. Þar verða eignir að standa undir skuldbindingum og ef ekki næst ávöxtun eða forsendur um dánarlíkur og örorkulíkur og annað bregðast þá þarf að skerða réttindin, hækka iðgjaldið eða hækka ellilífeyrisaldurinn. Það eru þessar þrjár leiðir til að laga þá stöðu og sú staða verður að standa undir sér. Lífeyrissjóðirnir urðu reyndar fyrir miklu áfalli í hruninu og það veldur því að menn hafa verið að fresta því að reikna út hina raunverulegu stöðu og taka afleiðingum hennar eins og hjá opinberu sjóðunum. Ég tel því að menn ættu að fara að horfast í augu við vandann. Þetta minnir mikið á Grikkland.

Svo er annað sem ógnar lífeyrissjóðunum. Vegna mikils offramboðs af krónum, aðallega í eigu útlendinga, hefur ávöxtunarkrafa lækkað á ríkisskuldabréfum. Það er í sjálfu sér ágætt, herra forseti, að ríkið þurfi að borga lægri vexti en það þýðir að vaxtaviðmið lífeyrissjóðanna, raunvaxtaviðmiðið sem réttindakerfi þeirra byggir á og jafnar mun á milli eldri og yngri sjóðfélaga, 3,5%, næst ekki. Þetta er sennilega stærsta ógnin við almennu sjóðina en ekki við opinberu sjóðina því að þar eru réttindin tryggð. Það lendir á ríkissjóði ef þeir ná ekki að sýna raunávöxtun, það lendir á skattgreiðendum, á því sama fólki og þarf að skerða í almennu sjóðunum. Þetta er ekki nógu gott, þetta kerfi er ekki nógu félagslega réttlátt.

Ég tel mjög brýnt að menn fari að horfast í augu við þetta og sýni þær tölur sem um er að ræða. Ég vil reyndar ganga lengra, ég vil að ríkissjóður sýni allar skuldbindingar sem hann hefur.

Menn hafa verið að tala hér um Íbúðalánasjóð. Ég gat þess 2004 í þessum ræðustól, þegar breytingin var gerð á lánakjörum þar, að ef raunávöxtunarkrafan færi niður fyrir 4%, sem þá var í gangi, gætu myndast gífurlegar skuldbindingar á þeim bæ. Þá svöruðu menn mér: Hvað er þetta, raunvextir á Íslandi fara aldrei svo mikið niður, niður fyrir 4%, það er alveg útilokað. Núna sitjum við uppi með 2% raunvexti, reyndar 2,6% í augnablikinu en þeir fóru niður í 2% þegar verst lét. Þetta er vegna þess að það er svo mikið af krónum í eigu erlendra kröfuhafa. Ef okkur tekst að leysa þennan vanda sem við ræddum hér fyrr í dag hækkar væntanlega ávöxtunarkrafan aftur og þá lagast staða lífeyrissjóðanna hugsanlega og staða Íbúðalánasjóðs, en við þurfum að horfa á stöðuna eins og hún er í dag. Við þurfum að meta skuldbindingu Íbúðalánasjóðs.

Ég mundi vilja sjá í fjárlagafrumvarpinu, sem sést væntanlega fljótlega, að tekið yrði á þessum vanda, þar yrði einfaldlega sagt að ríkissjóður væri með svo og svo marga milljarða, væntanlega tugi eða hundruð milljarða í halla. Þannig er bara staðan, því búi er hæstv. ríkisstjórn að taka við. Þá værum við búin að horfast í augu við þann vanda og gætum farið að takast á við að leysa hann, m.a. með því að gera samkomulag við opinbera starfsmenn um að létta eitthvað á réttindunum, t.d. með því að hækka ellilífeyrisaldur. Það þarf hugsanlega að gera það hjá hinum lífeyrissjóðunum líka. Þar þarf hugsanlega að hækka ellilífeyrisaldurinn, ekki bara upp í 67 ár heldur upp í 69 eða 70, ég held jafnvel að við þurfum að fara enn hærra til þess að milda þetta. Fyrir utan það er fólk náttúrlega miklu sprækara núna en þegar ákveðið var að hafa ellilífeyrisaldurinn í kringum 67 ár; það var Bismarck sem kom því á 1891 og þá var miðað við meðalaldur hermanna á 19. öld.

Ég er ekki alveg sáttur við þetta ákvæði. Það er búið að fella út það ákvæði sem ég er hlynntur, í 2. gr., að skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris sé að sjóðfélagi hafi farið í endurhæfingu. Það verður væntanlega tekið upp í haust og ákveðið. Ég tel að það sé allra hagur að sjóðfélaginn fari í endurhæfingu og ekki síst hans sjálfs. Nú vil ég ekki hafa forsjárhyggju en hann er jú að taka peninga úr sjóðum sem allir sjóðfélagar í viðkomandi lífeyrissjóði eiga.

Ég vildi gera grein fyrir þessari afstöðu minni. Ég skora á hv. þingheim að fara nú að horfast í augu við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir því að við okkur blasir annar vandi sem við þurfum líka að horfast í augu við og leysa, sem er sá að fjöldi ellilífeyrisþega mun tvöfaldast á næstu 15 árum, nýgengi ellilífeyrisþega. Það má segja að allir árgangar Íslendinga séu jafn fjölmennir, það eru um 4.400 manns plús/mínus einhver hundruð frá 0 og upp í 55 ára aldur. Eftir það lækkar sá fjöldi mikið. Það er því að mæta okkur mikið nýgengi af fólki sem er að mínu mati miklu sprækara en var fyrir 40–50 árum. Við þurfum að taka á því með einhverjum hætti. Við þurfum að horfast í augu við þann vanda líka því að það eru jafn sterkir árgangar sem þurfa að standa undir þessum sívaxandi fjölda aldraðra sem þurfa ekki bara lífeyri, þeir þurfa líka umönnun, hjúkrun og alls konar þjónustu sem þjóðfélagið þarf að veita og til að geta veitt þá þjónustu verðum við að byggja á miklu sterkara efnahagslífi.