142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem flutt er fram af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa í samráði við innanríkisráðherra nefnd með þátttöku sveitarfélaganna og annarra hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka, er geri tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin standi að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Miðað verði við að þegar fæðingarorlofið hefur verið lengt í 12 mánuði árið 2016 verði sveitarfélög um landið reiðubúin að veita þjónustuna. Nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014.“

Hér er í raun um að ræða tillögu um ákveðinn vinnufarveg, þ.e. að setja þá hugsun í skipulegan farveg að afar mikilvægt sé að tryggja að samfélagið beri í sameiningu ábyrgð á tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til hið skipulega leikskólastarf tekur við. Það er viðfangsefni og hefur verið viðfangsefni ungra fjölskyldna nú um ára- og áratugaskeið að vinna úr þeim vanda sem upp kemur þegar fæðingarorlofi lýkur og áður en skipuleg daggæsla eða leikskóli tekur við. Það var þannig fyrir ekki svo mörgum árum að leikskólinn var í raun félagslegt úrræði, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, og er ekki fyrr en með tilkomu Reykjavíkurlistans á sínum tíma sem hann verður raunverulegt úrræði fyrir allar barnafjölskyldur.

Því er um að ræða langa sögu sem snýst um að koma til móts við breytt samfélagsástand. Við erum að tala um stóraukna atvinnuþátttöku kvenna, miklu meiri virkni beggja kynja á vinnumarkaði sem að hluta til markar Íslandi stöðu meðal þeirra landa sem lengst eru komin í kynjajafnrétti. Það er því gríðarlega mikilvægur þáttur í því að konur hafi sterka stöðu á vinnumarkaði að samfélagið beri ábyrgð á því að tryggja örugga leikskólavistun. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í íslenska menntakerfinu nú þegar og er ætlaður börnum undir sex ára aldri en skólaskylda hefst þá eins og við þekkjum og leikskólabörn eru ekki skólaskyld. Eigi að síður erum við öll, vænti ég, sammála um að leikskólavistun er gríðarlega mikilvægur hluti af uppeldi í þágu bæði þroska og velferðar barna á fyrstu árum ævi sinnar.

Í lögfestri markmiðslýsingu íslenskra leikskóla í lögum nr. 90/2008 segir, með leyfi forseta:

„Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.“

Þannig er í raun og veru þessi rammi að leikskólanum lagður í lögfestri markmiðslýsingu þó að viðfangsefnið og verkefnið sé sannarlega á hendi sveitarfélaga. Undanfarin ár hefur umræðan um stöðu yngsta hópsins hins vegar vaxið á opinberum vettvangi. Yngstu börnin eiga að jafnaði ekki kost á að njóta þeirra gæða sem leikskólinn hefur upp á að bjóða og þetta stafar af því að milli loka fæðingarorlofs, sem núna lýkur um níu mánaða aldur, og þar til leikskóladyrnar opnast fyrir börnunum þá getur liðið alllangur tími enda er mjög algengt að leikskólar sveitarfélaganna veiti börnum ekki viðtöku fyrr en á aldrinum 18–24 mánaða. Foreldrar og forráðamenn ungbarna hafa því þurft að leita annarra leiða og við þekkjum þær leiðir sem oftast felast í því að vista börnin í daggæsluúrræðum í heimahúsum eða á einkareknum ungbarnaleikskólum sem hafa raunar nú nýverið verið í samfélagsumræðunni.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ítrekað lagt áherslu á mikilvægi leikskólastigsins og það er mikilvægur þráður í pólitík okkar Vinstri grænna að halda mikilvægi leikskólastarfs til haga fyrst og fremst vegna mikilvægis jöfnunar aðstæðna fólks en ekki síður vegna kynjajafnréttissjónarmiða og svo það sem mikilvægast er af öllu en það er tækifæri ungra barna til að njóta leikskólavistunar og leikskólamenntunar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram nokkrum sinnum á árunum 2003 til 2005 þingsályktunartillögu um samstarfsverkefni ríkis- og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla og töluverð umræða hefur verið um það á sveitarstjórnarstiginu hversu mikil gjaldtakan eigi að vera á leikskólastiginu og kannski bara yfir höfuð sú umræða hvort almennt sé eðlilegt að taka há gjöld af foreldrum og fjölskyldum vegna þessarar grunnþjónustu.

Þá erum við að tala um leikskólann. Við erum að tala um skólamáltíðir og við erum að tala um frístundaheimili. Þetta eru auðvitað allt saman viðfangsefni sveitarfélaganna og ég vil taka það sérstaklega fram að meiningin með þessari tillögu er alls ekki sú að seilast inn á verksvið sveitarfélaganna heldur miklu frekar að skapa þennan samræðuvettvang því að á meðan verið er að lengja fæðingarorlofið skref fyrir skref, okkar megin ef svo má að orði komast, af hendi ríkisvaldsins, má telja eðlilegt og æskilegt að sveitarfélögin sameinuð nálgist það hinum megin frá þannig að öll sveitarfélög séu reiðubúin til að bjóða leikskólaúrræði strax að afloknu fæðingarorlofi árið 2016 þegar lögin komast til framkvæmda.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram er lagt til að nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014 þannig að við gerum ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra, sem er ráðherra leikskólamála, setji saman samstarfshóp til að kanna möguleika á skipulegri nálgun þessa verkefnis, að setja það í skipulegan og samhæfðan farveg, ef svo má að orði komast, í samráði við Samband sveitarfélaga. Þau sveitarfélög sem lengst eru komin í þessum efnum og líka þau sem eru í dreifðari byggðum samfélagsins horfast í augu við allt aðra stöðu í raun.

Það sem við höfum verið að sjá undanfarin ár og áratugi er gríðarlega mikil efling leikskólastigsins, það hefur styrkst að verulegum mun. Lög um leikskóla voru samþykkt hér í þinginu 1991. Þá er stigið formlega gert að lögum og fært inn í skólakerfið. Þetta voru fyrstu lög um leikskóla sem fjölluðu um inntak starfsins, sem fjölluðu um það hvað fer fram í leikskólum og ná til barna frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur og þar til skólaskylda hefst, þ.e. það er sá tími sem lagasetningin rúmar. Í lögunum er mjög ítarleg markmiðsgrein þannig að tilgangur þessara skóla hvíldi þá fyrst á traustum lagagrunni.

Það sem mér þykir sérstaklega vænt um í þessum texta er miðlæg staða leiksins í lögunum vegna þess að þá er það fyrst nefnt sérstaklega að skólastarfið byggist á leik, á því að læra í gegnum leik. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að kenna um hríð á öllum skólastigum og þá hefur mér einmitt fundist að nota mætti leik miklu meira sem kennsluaðferð á öðrum skólastigum eins og gert er á leikskólastiginu. Frekar en að horfa til þess að bóknám færist neðar þá eigum við að færa leikinn ofar. Það er mín afstaða og ég held að það snúist líka um að efla skapandi hugsun og fjölbreytta nálgun að skólastarfi. En það er svo sem líka viðfangsefni sem hefur verið að aukast með nýrri aðalnámskrá grunnskóla og nýjum áherslum þar sem sköpun er einn af grunnþáttunum.

Í þessum lögum er líka lögð sú skylda á herðar sveitarfélögunum að stofna leikskóla en í lögunum frá 1994 er leikskólinn formlega skilgreindur sem fyrsta skólastigið og tekinn inn í skólakerfið. Árið 1991 var í raun fyrsta skrefið stigið í þá áttina og heitið leikskólakennari var þá fyrst notað um fagfólk hvort sem það lýkur leikskólakennaranámi eða fóstrunámi, fagfólk sem hefur þá fram að þeim tíma borið starfsheitið fóstra.

Árið 1999 sjáum við aðalnámskrá leikskóla og 2009 er stigið það mikilvæga skref í Reykjavíkurborg að um er að ræða gjaldfrjálsa tíma fyrir fimm ára börn í leikskólum Reykjavíkur og borgin stefnir að því að stíga skref í áttina að gjaldfrjálsum leikskóla. Svo varð hrun þannig að ég held að öllum hafi verið ljóst að stórfelld áform um aukna gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fjölskyldur og heimili yrðu sett í bið en full ástæða er til að taka þessa umræðu upp aftur. Ég vil geta þess sérstaklega í þessu sambandi að við þurfum að halda hér inni allri umræðu um tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, flutning verkefna til sveitarfélaga o.s.frv. Þetta er stórt samspil sem um er að ræða en við erum að ræða um það fyrst og fremst að færa þetta viðfangsefni, sem sveitarfélögin hljóta hvert um sig að vera að glíma við, og óteljandi barnafjölskyldur úti um allt land eru að glíma við, með ábyrgum hætti í uppbyggilegan samráðsfarveg. Ég held að það ætti að vera viðfangsefni sem væri okkur öllum hagfellt að vinna að. Það er leið sem verður að fara þegar um er að ræða miklar breytingar og miklar kerfisbreytingar, að vinna það í breiðu samráði og ég held að menn séu að jafnaði ekki ósammála um þau markmið sem þarna eru undir.

Aðeins til upprifjunar þá var það svo að lögum um fæðingarorlof, sem voru sett hér árið 2000, var breytt með lögum nr. 143/2012, þar sem lögfest var að lengja rétt til fæðingarorlofs í áföngum þannig að fæðingarorlofsrétturinn verður 12 mánuðir frá 1. janúar 2016 að telja. Það er gríðarlega mikilvægt að samhliða þeirri breytingu, og við sjáum þá hreyfingu fram að þeim tímapunkti í gegnum svona samráðsvinnu, verði létt af foreldrum og ungbarnafjölskyldum þeirri óvissu sem ríkir um dagvistunarmál og leikskólamál, daglegt líf má segja þessara barna, þessa aldurshóps sem um ræðir, með því móti að sveitarfélögin sjái til þess að leikskólar þeirra standi ársgömlum börnum opnir. Það er einungis þannig sem unnt verður að tryggja að bæði velferðar- og uppeldismarkmið samfélagsins, sveitarfélaganna, ríkisins og fjölskyldnanna, nái fram að ganga.

Virðulegur forseti. Ég vona að hér verði einhver umræða um þessa tillögu og vænti þess að stjórnarmeirihlutinn taki þessu af alkunnum sveigjanleika og bjartsýni og færi þetta með okkur í uppbyggilegan farveg. Ég vona að nefndin sendi þetta til umsagnar eins og vera ber og við vinnum að því að fullnusta þessa leið ef til vill með áorðnum breytingum sem nefndin leggur til íslenskum fjölskyldum til heilla.