142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Í mínum huga snýst þetta um grunngildin, hvort við viljum vera hráefnisþjóð fyrir þjóðirnar í kringum okkur og nágrannaríkin eða framleiðsluþjóð sem sendir frá sér fullunnar vörur.

Í Lissabon-sáttmálanum sem er nokkurs konar stjórnarskrá Evrópusambandsins og aðildarríkin þurfa að undirgangast er talað um orkumál í I. bálki sem fjallar um flokka og svið valdheimilda Evrópusambandsins sem það deilir með aðildarríkjunum. Í XVI. bálki er fjallað um samevrópskt netkerfi. Þar segir, virðulegi forseti, í 170. gr. að Evrópusambandið skuli „stuðla að uppbyggingu og þróun grunnvirkja fyrir samevrópsk flutninga-, fjarskipta- og orkunet. Aðgerðir Sambandsins skulu miða að því, innan ramma opinna samkeppnismarkaða, að ýta undir samtengingu og rekstrarsamhæfi netkerfa aðildarríkjanna, svo og aðgang að slíkum netkerfum. Þær skulu einkum taka mið af nauðsyn þess að tengja eyjar, landlukt svæði og jaðarsvæði við miðlæg landsvæði Sambandsins.“

Síðan kemur eftirtektarvert heimildarákvæði í 3. mgr. 171. gr. en þar er Evrópusambandinu veitt heimild til að styðja verkefni sem þjóna sameiginlegum hagsmunum aðildarríkjanna með lánatryggingum, vaxtaniðurgreiðslum eða fjármögnun.

Þarna er verið að tala um orkuafhendingu í Evrópusambandinu á milli ríkja Evrópusambandsins. Þetta er kannski grunnpunkturinn og hugsunin í því hvers vegna svo mikil umræða fer fram nú um þennan sæstreng. Ég minni á það að nú er búið að setja ESB-umsóknina á ís og þess vegna held ég að það fjari nú aðeins undan þessu verkefni. Þarna hef ég sýnt fram á að kannski var kominn það mikill kraftur í þetta mál vegna þess að umsóknin fór inn.