142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda og flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, fyrir góða yfirferð og kynningu og vil ég í raun taka undir með öllum sem hér hafa talað. Þetta er mikilvægt mál sem við þurfum að skoða og finna leiðir í. Þetta kemur ekki hvað síst inn á jafnréttismálin sem mér eru töluvert hugleikin. Eins og fram hefur komið snertir þetta náttúrlega jafnrétti barna um allt land og ekki síst jafnrétti kynjanna af því að sú er raunin að konur hafa frekar dregið sig út af vinnumarkaði þegar að því kemur að sinna börnunum á þessu æviskeiði.

En reyndin er sú að sveitarfélög víða um land hafa lagt mikinn metnað í rekstur leikskóla þrátt fyrir að það sé ekki lögbundið hlutverk þeirra og mörg hver og kannski flest sinna þessum þætti afskaplega vel með góðu starfsfólki, öflugu og góðu starfi sem okkar hlutverk er kannski að styðja og styrkja. Ég fagna því framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og ég vona að við finnum leiðir til að finna henni farveg og þá í góðu samráði við alla hlutaðeigandi, bæði atvinnurekendur og ekki síst sveitarfélögin sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu og við getum leitað í smiðju til til að fá umsögn og leiðbeiningar um það hvert hlutverk okkar á Alþingi ætti að vera. Ég þakka framlagningu þessarar þingsályktunartillögu.