142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Ég tel mjög mikilvægt að við hv. þingmenn förum að líta á þetta kerfi allt saman frá sjónarhorni barnsins líka. Mörg börn geta farið að heiman tveggja ára, en fá eins árs. Sum þeirra þurfa að bíða til þriggja ára aldurs til að geta farið að heiman út í heiminn. Ég þekki það mörg börn að ég veit að það er oft mikill grátur og gnístran tanna þegar er verið að venja börnin við eins og kallað er. Ég held að menn þurfi að skoða ýmsar leiðir í þessu.

Það sem gleymist alveg í þessari umræðu og er ekki nefnt í þingsályktunartillögunni er foreldraorlofið sem er til staðar í dag. Það er heimild foreldra til að taka sér ólaunað frí. Ef því er blandað saman við fæðingarorlofið og þá staðreynd að sveitarfélögin borga að meðaltali 130 þús. kr. á mánuði fyrir plássið og það er dýrast fyrir eins árs barn, 180 þús. kr., væri hægt að láta foreldrana fá 180 þús. kr. fyrir eins árs barn skattfrjálst og blanda því saman við foreldraorlofið, sem er heimild til að taka launalaust leyfi, og fæðingarorlofið. Þá gætu foreldrarnir verið lengur heima en í dag, jafnvel til tveggja ára aldurs, skipst á um það.

En þá kemur að einum þætti sem vantar inn í þetta líka og það er atvinnulífið. Atvinnulífið þarf að vera sveigjanlegt og heimila t.d. foreldrum að vinna hálfan daginn hvoru og svo skiptast þau á, þau geta jafnvel notað sama bílinn, með skynsamlegri skiptingu. Þarna þarf atvinnulífið að koma inn í og bjóða foreldrum hálfsdagsstörf þannig að þeir geti skipst á um að vera heima öllum til hamingju og ánægju. Það er mitt mat. Það er mjög leiðinlegt að vera með barni allan daginn, það er mikil frústrasjón, ég hef prófað fyrir langalöngu að heyra bara „bla bla“ allan daginn [Hlátur í þingsal.] og tala aldrei við fullorðið fólk. Hins vegar er mjög gefandi að vera hálfan daginn með barni og hinn helminginn með fullorðnu fólki sem maður getur talað íslensku við.

Ég held að menn ættu að skoða þetta allt saman.Við höfum sett á fæðingarorlof í níu mánuði og hvað svo? Ég er búinn að spyrja að þessu mörgum sinnum. Hvað svo? Ég hef ekki fengið svar. Menn eru með alls konar neyðarúrræði. Það eru dagmæður, ágætisfólk sem vinnur mjög gott starf en oft og tíðum er aðstaðan ekki mjög góð. Svo eru mjög dýr pláss á vöggustofum sem kosta eins og ég segi 180 þús. kr. á mánuði. Ég mundi vilja að menn skoðuðu þetta allt saman í heild sinni og alveg sérstaklega út frá sjónarhorni barnsins. Ég hef skynjað það á börnum að þau vilja fara í heimsóknir upp úr þriggja ára aldri, þá vilja þau fara að kanna heiminn utan veggja heimilisins. Þá finnst mér alveg sjálfsagt að þau fari á leikskóla. Sum þeirra geta farið tveggja ára, vissulega, en mjög fá eins árs. Þau eru reyndar ekki spurð þá, þau eru yfirleitt aldrei spurð. Þetta er alltaf einhver þvingun, neyð foreldranna, þau verða bæði að sækja vinnu.

Ég held að menn ættu að skoða það að sá kostnaður sem sveitarfélagið ber renni til foreldranna. Þetta er einmitt mikið til umræðu í Þýskalandi í kosningabaráttunni þar, að kostnaðurinn renni til foreldranna og hann getur runnið þangað skattfrjálst því hann er skattfrjáls í dag. Menn fá þennan kostnað frá sveitarfélaginu, þeir borga ekki skatt af honum, þetta eru ekki hlunnindi þannig að sá kostnaður er skattfrjáls í dag.

Ég fagna þessari tillögu og ég vil að sú nefnd sem fær hana til skoðunar skoði þessa þætti sem ég hef nefnt, þ.e. hlutdeild atvinnulífsins, því sé bætt inn í þingsályktunartillöguna, og foreldraorlofið sem er í lögum í dag.