142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

12. mál
[18:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í þessari þingsályktunartillögu eru tilmæli, sem sagt, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að senda tilmæli“ til kröfuhafa í rauninni. Það er hægt að láta ákveðna afstöðu þessara ráðherra til málsins fylgja þessum tilmælum þannig að þetta hafi smátennur eða smáklær, hafi smáhvata til að farið verði að þessu. Eins og kom fram í umræðum í dag, sérstökum umræðum um eignarrétt lántakenda, þá getur innanríkisráðherra þrýst á það með því að segja að hún ætli að skoða þann möguleika að sjá hvernig hún framfylgi tilskipunum frá Evrópusambandinu sem hafa verið innleiddar í íslensk lög þegar kemur að því að heimili fólks séu ekki sett á uppboð ef vafi er um lánasamningana. Við vitum öll að það er vafi um lánasamninga. Ríkisstjórnin hefur bent á þennan vafa í þingsályktunartillögum og lagafrumvörpum og talað um að flýta dómsmálum sem er mjög virðingarvert.

Í þessari þingsályktunartillögu felast tilmæli til kröfuhafa um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum. Píratar eru sérstaklega hlynntir því, og það er partur af okkar stefnu, að ekki skuli farið í nauðungarsölur þegar kemur að heimilum fólks.

Dómafordæmi í Evrópu samkvæmt lögum sem hafa verið innleidd á Íslandi segja að það megi ekki — megi ekki — áður en dómstólar skera úr um mál, um lögmæti lánasamninga, fara í nauðungarsölur á heimilum fólks. Þetta er skýrt.

Innanríkisráðherra getur stigið fram og sagt: Þetta ætlum við að skoða. Við ætlum að skoða önnur úrræði til að setja smákraft í þessi tilmæli til kröfuhafa, til að skapa smáhvata í þessi tilmæli til kröfuhafa um að fara ekki í nauðungarsölur á heimilum fólks.