142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

lög um fjárreiður ríkisins.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nýtt frumvarp til laga um opinber fjármál er í lokafrágangi í fjármálaráðuneytinu og ég hyggst mæla fyrir því nú í haust. Hugsanlegt er að það komi inn sem eitt af okkar fyrstu málum. Þetta mál hefur verið í undirbúningi í langan tíma, lengst af í tíð fyrri ríkisstjórnar en það hefur verið unnið í góðu samstarfi við fjölmarga aðila innan stjórnsýslunnar, m.a. við fjárlaganefnd Alþingis, og verið sniðið af því það helsta sem menn hafa haft út á málið að setja þó að markmiðunum með setningu laganna hafi aldrei verið fórnað.

Varðandi það hvort lögin opni fyrir möguleika á því að fara í sérstaka fjármögnun á Landspítalanum tel ég að við verðum að nálgast málið út frá almennum viðmiðunum en kannski ekki einstökum verkefnum og í fyrsta lagi gera okkur í grein fyrir því að jafnvel þótt skuldsetning vegna byggingar Landspítalans kæmi ekki inn í A-hlutann eins og við þekkjum uppgjörið í dag breytir það engu um að ríkið mundi á endanum þurfa að standa undir afborgunum og greiðslu vegna framkvæmdarinnar. Ég tel að við þurfum að fara afar varlega í að taka stórframkvæmdir út fyrir sviga, út fyrir efnahag hjá ríkinu inn í einhver sérstök félög og blekkja okkur með því að þannig höfum við fundið upp einhverja peningavél, tímavél til þess að skauta yfir tímabil þar sem þröngt er í ári hjá okkur.

Það geta hins vegar vel verið góð rök fyrir því að setja á fót sérstök félög, t.d. þegar menn eru að leiða saman einkaframtak og opinbera aðila til þess að fjármagna einstaka framkvæmdir samkvæmt sérstöku fyrirkomulagi, en þá finnst mér ávallt að áhættan þurfi um leið að vera dreifð en ekki öll í fanginu á ríkinu.