142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

lög um fjárreiður ríkisins.

[15:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég get játað að ég er mjög ánægður með fyrri hluta svars hæstv. fjármálaráðherra, þ.e. að nýtt frumvarp sé að koma og verði eitt af fyrstu málunum á næsta þingi. Ég fagna því mjög vegna þess, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að það hefur staðið lengi til. Ég sagði áðan að spurning mín væri vegna áhuga á byggingu nýs Landspítala og ég sagði einnig að ef við Íslendingar ætlum að byggja nýjan Landspítala, sem mjög mikil þörf er á, sæi ég ekki nokkra einustu leið aðra en að gera það á þann hátt að ríkissjóður afli sér lánsfé — beinast liggur við hjá lífeyrissjóðunum sem eru sneisafullir af peningum og vantar fjárfestingartækifæri — og að við gætum sameinast um það hér á Alþingi að þetta verði verkefni næstu fjögur, fimm ár. Það verði stóra verkefnið sem skapar atvinnu og eykur hagvöxt, það sem við erum að tala um að vanti í þjóðfélaginu, og okkur vantar sannarlega nýjan spítala. Við skulum hafa í huga að það kostar mikla fjármuni úr ríkissjóði ef við ætlum að halda áfram (Forseti hringir.) að klastra við eða lagfæra (Forseti hringir.) þann spítalann sem er í notkun núna (Forseti hringir.) og ég tel einfaldlega að við Íslendingar (Forseti hringir.) eigum það inni hjá okkur sjálfum að byggja nýjan (Forseti hringir.) spítala.