142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

rekstur Landhelgisgæslunnar.

[15:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Fjölmiðlar sögðu frá því í morgun að varðskipið Þór hefði einungis verið á sjó í 80 daga af þeim 260 sem liðnir eru af árinu, en á síðasta ári hefði varðskipið verið samtals 125 daga á sjó. Skipið var þó ekki í rekstri þrjá mánuði á því ári vegna vélarviðgerðar í Noregi.

Það er óþarfi að rekja það hvað Landhelgisgæslan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar, m.a. björgunarverkefnum og er varðskipið Þór sérstaklega til þess búið að sinna stærri björgunarverkunum og viðbúnaði sem minni skipin hafa ekki tök á að sinna. Þess vegna er það mikið áhyggjuefni ef varðskipið Þór, sem byggt var fyrir 5 milljarða kr. og kom svo að lokum til landsins með nokkrum herkjum og var, eins og ég sagði, síðan í vélarviðgerð eftir að það kom til landsins, getur ekki nýst sem skyldi í þeim mikilvægu og brýnu verkefnum sem það á að sinna. Í frétt fjölmiðla í morgun er haft eftir forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar að kostnaður við flugdeild Gæslunnar hafi farið vaxandi undanfarin ár og þess vegna hafi þurft að skera niður í rekstri skipaflotans.

Mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvernig hann lítur á rekstrarumhverfi Landhelgisgæslunnar í þessu samhengi og hvort ekki sé að hans mati mikilvægt að tryggja Landhelgisgæslunni fjármuni til að halda úti bæði þyrlusveit og skipaflotanum, ekki síst í ljósi þess öryggishlutverks sem Landhelgisgæslan gegnir. Er við því að búast að boðaður niðurskurður upp á 1,5% verði látinn bitna á Landhelgisgæslunni?

Það eru spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra.