142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

rekstur Landhelgisgæslunnar.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig að í samþykktum fjárlögum fyrir árið 2013 var einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að Landhelgisgæslan hefði meira svigrúm en birtist í þessum tölum til að halda varðskipinu úti. Við erum alveg sammála um það, hygg ég, ég og hv. þingmaður, að Landhelgisgæslan gegnir gríðarlega miklu öryggishlutverki og reyndar mjög víðtæku hlutverki í hinni stóru landhelgi okkar og tölurnar eru ákveðinn mælikvarði á það hvert við erum komin í niðurskurðinum. Það er auðvitað á fleiri sviðum sem við erum farin að sjá að ekki verður lengra gengið í því að gæta aðhalds. Fyrir komandi ár verður þess gætt að Landhelgisgæslan fái í það minnsta sambærilegt fjármagn og hún hefur haft en svigrúmið er afskaplega takmarkað til að fara að auka til einstakra stofnana. Í þessum fyrirspurnatíma rétt áðan var til dæmis verið að spyrjast fyrir um hvað hægt væri að gera á heilbrigðissviðinu og við munum þurfa að forgangsraða þegar við komumst aftur í stöðu til að bæta í framlögin.

Í víðara samhengi er það svo um Landhelgisgæsluna að segja að það er sorglegt að vera að leigja þyrlur á því háa verði sem greitt er í leigugjald fyrir þær og dapurlegt fyrir okkur að hafa ekki verið í stöðu til að fjárfesta frekar í þyrlunum til að spara fjármuni til lengri tíma. En staðan er einfaldlega þannig að þegar menn hafa ekki úr neinu að spila þá getur verið erfitt að komast ekki á útsölu en menn fara ekki á útsölu ef þeir eru með tóma vasa.