142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að það vantar inn í frumvarpstextann tilvísun í þetta samkomulag, sem ég hef nú ekki lesið í hörgul en úr því verður bætt þegar málið kemur inn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd því að ég sit þar og ég mun leggja það til að bætt verði úr textanum.

Svo varðandi þá sem keyptu fyrir 2004, að veðsetningarhlutfallið eigi ekki að lækka samkvæmt því sem hv. þingmaður sagði niður fyrir það sem það var þegar lánið var tekið og því fá væntanlega flestir sem keyptu fyrir 2004 ekki neitt.

Síðan er það spurningin með aðstoð foreldra. Nú eru sumir þessara foreldra illa settir, þeir hafa ekki miklar tekjur og skulda í eigninni sinni og jafnvel er hætta á að þeir missi eignina ef gengið verður að veðinu og þess eru dæmi. Hins vegar eru aðrir sem ég mundi segja að væru moldríkir og búa í skuldlausri eign að öðru leyti en þessu láni og hafa miklar tekjur og miklar eignir o.s.frv. Ég er viss um að þeir gleðjast yfir því að lánið sem þeir veittu veð fyrir sé greitt upp. Hvar er þá aðstoðin sem þau voru að veita börnunum sínum? Ætlar ríkið að hjálpa þeim að aðstoða börnin sín við að kaupa eignina? Þetta er ekki alveg svona einfalt. Ég hefði gjarnan viljað sjá tekið eitthvert tillit til fjárhagslegrar stöðu þess sem á veðið þannig að við stöndum ekki í svona löguðu. Ég vil jafnframt benda á að staða ríkissjóðs, sem á að borga þetta allt saman, er mjög slæm.

Hér er talað illa um lífeyrissjóðina, það er talað um að þeir hafi tregðast við o.s.frv. Ég vil benda hv. þingmanni á að allir almennu lífeyrissjóðirnir standa undir öllum skuldbindingum sínum með eignum og ef verið er að skerða eignirnar þarf að skerða lífeyri hjá almennum sjóðfélögum en ekki hjá ríkisstarfsmönnum, ekki hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þar eru réttindin tryggð.