142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sterkustu sanngirnis- og réttlætisrökin í þessu máli stofnist með því að líta á lántakandann sjálfan og stöðu hans, ekki spurninguna um efnahag foreldra eða annað því um líkt. Þetta er, segjum bara ungt fólk sem keypti íbúð, tók til þess lán og það þurfti veð annars staðar frá til þess að klára kaupin, en það ætlar að standa við sitt. Það vill borga sín lán. (Gripið fram í.) Það situr fast í yfirveðsettri eign og er að því leyti til í mjög erfiðri stöðu. Að sjálfsögðu vill enginn þurfa að leita til þess sem lánaði honum veð og biðja um hjálp frá honum. Við skulum ganga út frá því að almennt vilji þetta fólk eins og aðrir sjá um sig sjálft. Þvert á móti held ég að það sé þannig að í sumum tilvikum leggi menn óheyrilega hart að sér áður en þeir láta þann lenda í vandræðum sem lánaði þeim veðið.

Til þess að þessi hópur komist í sambærilega stöðu og 110%-leiðin þýddi fyrir flesta verður að ná veðhlutföllunum niður. Hugsunin á bak við þá leið var ekki bara sú að aðstoða með greiðslubyrði lánanna með því að færa þau niður að 110% veði. Hún var líka sú að færa skuldirnar þannig niður að menn sætu ekki fastir árum saman í bullandi yfirveðsettri eign. 110%-leiðinni var ætlað að verða að 100% leið og síðan 90% leið með því að fasteignaverð hækkaði meira en lánin og það hefur þegar gerst. Það þýðir aftur að menn geta losað sig út úr stöðunni án þess að labba í burtu með bullandi skuldir, þ.e. að lánið er þá ekki nema í svipuðum mörkum og fasteignin gefur við sölu.

Þessi hópur hefur ekki fengið þá úrlausn. Hann situr áfram fastur í 130–150% veðsetningu samtals með veðum á íbúð viðkomandi og hinu lánaða veði. Það er út úr þeirri stöðu (Forseti hringir.) sem við viljum koma þessum hóp.