142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál. Ég geri orð fyrsta flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, einfaldlega að mínum. Þar kom mjög vel fram hvers vegna þetta mál er lagt fram og ég tel að við þurfum ekki að hafa um það mjög langa umræðu, einfaldlega vegna þess að mönnum flestum eru málavextir kunnir.

Ég er feginn því að hæstv. fjármálaráðherra er viðstaddur umræðuna og skýrir afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa grafalvarlega máls. Ég hygg að einhver erfiðustu mál sem við þurftum að glíma við á síðasta kjörtímabili og tengjast skuldavanda heimilanna hafi verið mál tengd Dróma annars vegar og síðan þessi lánsveð hins vegar.

Það er ekki verið að tala illa um lífeyrissjóðina, það er rangt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. (Gripið fram í.)Það er rétt, þeir tregðuðust við, það er lýsing á því sem gerðist. Það voru okkur mikil vonbrigði hve erfiðir lífeyrissjóðirnir voru til samstarfs í þessu efni og það er rangt að setja málin inn í þá jöfnu sem hv. þm. Pétur Blöndal gerir, að það sé ávísun á tap lífeyrissjóðanna að koma til móts við lántakendur með þeim hætti sem við lögðum til vegna þess að í raun og sann teljum við að með þeim aðgerðum sé verið að koma í veg fyrir tap lífeyrissjóðanna eða að þeir verði af greiðslum inn í sína sjóði.

Það má deila um kosti og galla þess að lána veð. Það hefur gengið upp í gegnum tíðina, í aðalatriðum. Fólk hefur fengið lánað veð í íbúð pabba og mömmu, systkina og frændfólks og yfirleitt hefur það gengið upp. Síðan verður efnahagshrun á Íslandi og fólk sem er skuldum vafið lendir í miklum greiðsluvanda og gripið er til margvíslegra ráðstafana. Ein af þeim ráðstöfunum sem gripið er til almennt í fjármálakerfinu er sú leið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vísaði til, hin svokallaða 110%-leið sem byggir á því að lán eru færð niður hafi þau verið þar fyrir ofan.

Það gildir hins vegar ekki um lánin hjá þeim sem eru með lánsveð. Einstaklingur sem fær lánað veð í íbúð pabba og mömmu eða skyldfólks meðhöndlar lánin og skuldbindingarnar sem þær væru þeirra eigin, enda eru þær það. Einstaklingurinn borgar af láninu jafnt hvort veðið hvílir á eigin eign eða eign skyldmenna. Það sem þá stendur út af er að láta þessa almennu hjálparaðgerð sem fjármálakerfið innleiddi ná til þessa fólks líka. Það var ekki gert og í því er félagslegt ranglæti, teljum við, og mjög sárt ranglæti vegna þess að það er eitt að tapa sinni eigin íbúð, það er annað og verra að tapa íbúða annarra. Það er hið sára í þessu.

Ég leyfi mér að fagna yfirlýsingum hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar varðandi Dróma um þann ásetning stjórnvalda að reyna að taka á því máli sem við höfðum á okkar vinnsluborði lengi og reyndum að þoka áfram, en það er eins með það og margt annað að það hefur reynst þrautin þyngri.

Þessir samningar við lífeyrissjóðina, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að, voru langvinnir og ég get borið vitni um að þar var mikið reynt. Ég vil líka taka undir varnaðarorð um að ætla að frekari samningaviðræður í þeim búðum muni skila miklum árangri. Ég held að þær muni ekki gera það, því miður. Mér fannst hryggilegt að lífeyrissjóðirnir, sem byggja afkomu sína á lögbundnum greiðslum allra landsmanna, alls launafólks inn í sína sjóði, skyldu ekki sýna meiri félagslega ábyrgð í því efni. Ég harmaði það. Það er skoðun, ég er ekki að tala illa um einn eða neinn, þetta er skoðun mín. Tregðan er mjög raunveruleg, ég get borið vitni um það.

Ég bíð þess spenntur að heyra hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Ég hef ekki orðið var við annað en að hún vilji taka af alvöru á málinu og ásetningurinn sé sá og ég gef mér að það verði reynt að gera. Ég tel þetta vera mjög mikið réttlætismál. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að málið verður ekkert samþykkt núna, hér og nú, ekki í dag, það á að fara að slíta þinginu. En eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði er ástæða til að leggja málið fram, fá um það umræðu vegna þess að inni í bráðaaðgerðum ríkisstjórnarinnar var það því miður ekki að finna í haust. Ég man ekki eftir tilvísun í það í haust en ég vona að við fáum frumvarp þess efnis á fyrstu dögum þingsins þegar það kemur saman í október.