142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal líka hrósa hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, fyrir hans hatt. Reyndar er hún svo góð að hún er orðin sígild. Ég hef heyrt hana flutta svona fimm, sex sinnum á ári frá því að ég tók setu á Alþingi árið 1995 og hún gengur út á það að reyna að setja af stað sundrungu, ósætti á milli launafólks út af lífeyrismálum.

Það er alveg rétt, ég hef tekið þátt í stjórnum lífeyrissjóða og ég hef verið í starfi fyrir samtök launafólks. Ég get frætt hv. þingmann um það að þegar setið var við samningaborð og rætt um kaup og kjör, kaupið, þá var það iðulega gert með hliðsjón af lífeyrisréttindum og menn voru spurðir: Viltu láta ganga á lífeyrisréttinn? Og menn völdu. Menn völdu og lögðu áherslu á að hluti af kjörunum færi inn í lífeyrissjóðina.

Síðan voru gerðar breytingar á lífeyrislögunum sem gengu í gildi í byrjun árs 1997 þar sem opinbera kerfið varð tvískipt, gamla sjóðnum var lokað, kallað B-deild, og sett á fót annað kerfi, A-deild, sem er stigakerfi og sem síðan þarf að horfa á með hliðsjón af arðsemi sjóðanna til langs tíma og þá er það metið í samræmi við annað sem snertir kjörin við samningaborð, þannig að opinberir starfsmenn ekkert síður en aðrir eru með öll kjörin undir þegar lífeyrissjóðirnir eru annars vegar.

Það sem þetta mál snýst um er að fólk sem hefur fengið veð að láni hjá foreldrum eða ættingjum en er að greiða af lánum sínum sitji við sama borð og aðrir gera í okkar þjóðfélagi. Ég vænti þess að við fáum jákvæð viðbrögð frá ríkisstjórninni og ætla ekkert annað.