142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt hjá hv. þingmanni, ég er búinn að halda þessa ræðu allt of oft en einhvern veginn virðist hún ekki skiljast. Það sem ég hef verið að reyna að segja alla tíð, það er ekkert á móti opinberum starfsmönnum. Ég er að reyna að segja að það skiptir engu máli fyrir hina opinberu lífeyrissjóði hvaða álögur eru lagðar á þá, það skiptir akkúrat engu máli. Það skiptir heldur ekki máli hvaða ávöxtun þeir ná. Af hverju ekki? Vegna þess að í lögum stendur að réttindin séu föst. Það er iðgjaldið sem breytist hjá A-deildinni og skuldbindingin hjá B-deildinni, og hún er orðin 450 milljarðar. Við erum því ekki að tala um lágar upphæðir. Þarna ætla menn að bæta í — já, já, já, vera félagslegir og góðir og allt slíkt.

Allt í lagi. Og lífeyrissjóðirnir tregðast við að samþykkja, þeir tregðast við. Þannig tala menn. Menn eru að tala um að skerða eigi lífeyri hjá almennu verkafólki, það eru menn að tala um. Það heitir að tregðast við að ganga til samkomulags og vera allt of lengi að ræða um það og allt svoleiðis. Það er ekki neitt gamanmál fyrir stjórnir lífeyrissjóðanna að vera að semja um að afsala sér einhverjum eignum.

Svo er það þannig að staða lántakenda er afskaplega misjöfn. Eins og ég nefndi eru til menn sem hafa lánað veð sem eiga eignina skuldlausa að öðru leyti og hafa góðar tekjur og geta vel ráðið við þetta. Svo er líka margt ungt fólk sem tók lán, hefur verið í námi. Nú eru þetta verkfræðingar eða lögfræðingar og hafa mjög góðar tekjur og geta vel borgað af þessum lánum.

Þetta er því mjög víðtæk flóra og svo er náttúrlega fjöldi fólks í verulega miklum vanda bæði varðandi eignir og skuldir og alveg sérstaklega við að horfa upp á það að hugsanlega missi pabbi og mamma eignirnar sínar.