142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

þingfrestun.

[16:45]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Hv. alþingismenn. Komið er að lokum síðasta fundar Alþingis á þessu 142. löggjafarþingi. Samkomulag varð um það milli þingflokkanna á sumarþinginu að efna til þessara septemberfunda áður en nýtt þing kæmi saman en 143. löggjafarþing verður sett þriðjudaginn 1. október, eftir tæpar tvær vikur. Þá verður fjárlagafrumvarp lagt fram, svo sem kveðið er á um í 42. gr. stjórnarskrárinnar, en í fyrsta sinn mun þá reyna á nýtt ákvæði þingskapa um að samhliða fjárlagafrumvarpi verði lögð fram frumvörp um breytingar á lögum sem útgjöld og tekjur fjárlagafrumvarpsins byggjast á.

Frá upphafi lá ljóst fyrir að þinghaldið að þessu sinni stæði alls í sex daga og það hefur staðist. Hér hafa farið fram málefnalegar umræður um fjölmörg mál innan þess nauma stakks sem þinginu var skorinn. Þó svo að pólitískur ágreiningur hafi komið skýrt fram í umræðum einkenndust þær af hófstillingu og málefnalegu innleggi þingmanna. Þá hafa nefndir starfað jafnt að úrvinnslu þingmála sem til þeirra var vísað og undirbúningi verkefna vegna lagasetningar sem gera má ráð fyrir að verði á dagskrá þingsins á komandi vetri. Ekki er vafi á því að þetta mun verða til gagns við þingstörfin sem hefjast í byrjun næsta mánaðar.

Á þessum stutta tíma nú á haustdögum hefur Alþingi verið starfsamt. Fimmtán óundirbúnum fyrirspurnum hefur verið svarað. Fram hafa farið fimm sérstakar umræður á þeim sex þingdögum sem hér hafa verið. Lögð var áhersla á það af forseta að allir þingflokkar sem þess óskuðu ættu þess kost að hefja slíka umræðu og gekk það eftir. Þá bárust sex skrifleg svör ráðherra við fyrirspurnum sem bornar voru upp á sumarþingi. Fjögur frumvörp voru lögð fram og tvö þeirra hafa orðið að lögum. Loks voru fjórar þingsályktunartillögur auk þingfrestunartillögu lagðar fram. Mælt var fyrir þremur þeirra og þeim vísað til viðeigandi þingnefndar auk þingfrestunartillögunnar sem hefur verið afgreidd. Nefndafundir voru um það bil 35 og stóðu í 47 klst. samtals. Einnig fóru nokkrar nefndir í vettvangsferðir og heimsóttu stofnanir og fyrirtæki.

Ég vil við lok þessa fundar þakka hv. alþingismönnum samstarfið og þá sérstaklega varaforsetum, formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokkanna. Starfsfólki Alþingis þakka ég sömuleiðis fyrir þeirra mikilvægu störf.